Varðskipið Þór, nýtt eftirlits- og björgunarskip Íslendinga leggur að bryggju í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 26. október nk. Skipið verður til sýnis fyrir Eyjamenn milli kl. 14:00 og 20:00 og eru allir velkomnir um borð. Í frétt frá Landhelgisgæslunni segir að Vestmannaeyjar séu fyrsta höfnin sem Þór heimsækir við komuna til landsins. Þegar Þór kemur til Eyja á skipið að baki sjö þúsund sjómílna, um fjórtán þúsund kílómetra, siglingu frá Concepcion í Chile.