Knattspyrnumaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson fer ef að líkum lætur loksins fyrir fullt og allt frá danska úrvalsdeildarfélaginu Esbjerg þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í janúar. Gunnar Heiðar hefur verið úti í kuldanum hjá liðinu að drjúgum hluta síðan hann kom til þess sumarið 2008, en var lánaður til Fredrikstad í Noregi í sumar og gekk þar vel. Hann átti sinn þátt í að koma Fredrikstad upp í úrvalsdeild, og vilja forráðamenn félagsins semja við kappann. Að sögn Ólafs Garðarssonar, umboðsmanns Gunnars, mun Esbjerg ekki standa í vegi fyrir því að Eyjamaðurinn fari, en samningur Gunnars við Esbjerg rennur út næsta sumar.