Eyjamenn nýttu tækifærið margir hverjir nú í hádeginu til að draga fram slöngur og þrífa bæði hús og bíla. Eftir óveður síðustu daga var útlitið orðið ansi svart, í orðsins fyllstu merkingu því svört askan lagðist hreinlega yfir Heimaey og allt sem á henni er. Við öskuna blandast svo sandur ofan af landi sem fýkur yfir Vestmannaeyjar og seltan úr hafinu þannig að úr verður ansi hvimleiður kokteill.