Skóladagur Grunnskóla Vestmannaeyja var haldin 4. maí síðastliðinn í Hamarsskóla. Að vanda hófst dagurinn með lúðrablæstri Litlu lúðrasveitarinnar og hinni árlegu danssýningu frá nemendum í 1.til 5. bekk skólans í Íþróttamiðstöðinni. Mikill fjöldi fólks sótti danssýninguna sem þótti heppnast prýðilega. Að lokinni danssýningu var skólinn opnaður þar sem fjölbreytt dagskrá var í boði. Fimmtu bekkingar sáu um veitingasöluna. Ágóðinn af henni er notaður til að fjármagna skólaferðalag þeirra á næsta ári. Bræðurnir Andri og Arnar Júlíussynir voru með tilraunir í sal skólans sem hittu vel í mark hjá fólki á öllum aldri, enda skemmtilegir vísindamenn á ferð. Hægt var að spreyta sig á hinum ýmsu verkefnum í smíðum, handavinnu, myndmennt og tölvum, ásamt því að hægt var að fara í karókí, sem var í umsjón Söru Rene Griffins, sigurvegara Samfés 2016. Hápunktur skóladagsins var svo hlutaveltan, sem hefur notið mikilla vinsælda á skóladeginum í fjölda ára og mátti sjá gesti labba þaðan út með bros á vör og hina furðulegustu hluti í farteskinu. Einnig var lukkuhjólið á sínum stað sem var í umsjón íþróttakennara skólans og nemendur í unglingadeild skólans sáu um andlistmálningu og mátti sjá hin ýmsu listaverk á glöðum andlitum barnanna. Jarl Sigurgeirsson og nemendur sáu svo til þess að fallegir tónar hljómuðu á göngum skólans. Virkilega vel heppnaður skóladagur í Hamarsskóla og frábær mæting hjá foreldrum og forráðamönnum nemenda skólans.
Ljósmyndari Eyjafrétta var á svæðinu, hægt er að skoða myndir frá deginum
hér.