Samkvæmt samantekt lögreglunnar í Vestmannaeyjum voru hegningarlagabrot á síðasta ári 672 sem er veruleg fjölgun frá árunum á undan. Skiptir þar mestu fjölgun auðgunarbrota sem lögreglan segir að eigi sínar skýringar án þess að vilja fara nánar út í það. Verður þetta m.a. til þess að hvergi eru fleiri hegningarlagabrot miðað við mannfjölda en í Vestmannaeyjum á síðasta ári.
Að öðru leyti er þetta svipaður fjöldi á milli ára í helstu málaflokkum nema hvað kynferðisbrotum hefur fjölgað tvö síðustu ár. Fíkniefnabrot sveiflast á milli ára sem er eðlilegt að mati lögreglu og eru þau flest yfir þjóðhátíð.
Árið 2013 voru hegningarlagabrotin 505, 404 árið 2014, 494 árið 2015 og 672 á síðasta ári. Athygli vekur að kynferðisbrot voru tvö árið 2013, þrjú árið 2014 en fara upp í 13 árið 2015 og eru átta á síðasta ári. Auðgunarbrotum fækkar milli áranna 2013 og 2014 úr 45 í 20 og eru 36 árið 2015 en taka kipp á síðasta ári þegar þau fara upp í 63.
Heimilisofbeldismál hafa verið skráð undanfarið og á það sér þær skýringar að skráning þessara mála breyttist 2014 og því telur þetta sem sjálfstæður brotaflokkur í málaskrá lögreglu. �?au voru sex 2015 og 14 á síðasta ári.
Fjöldi líkamsárása er svipaður nema árið 2014 eru þær 20 og aldrei fleiri en á síðasta ári þegar 33 líkamsárásir koma til kasta lögreglu. Eignaspjöll náðu hæstu hæðum 2013 þegar þau voru 49 en eftir það eru þau í kringum 30. Fíkniefnamál rokka á milli ára og voru flest árið 2015, 90 en fæst á síðasta ári, 43.
Áfengislagabrotum fækkar öll árin, úr 22 árið 2013 í átta á síðasta ári. Aftur á móti náðu umferðarlagabrot nýjum hæðum á síðasta ári, voru 306 en ekki nema 135 árið 2013. Færri stútar voru teknir á síðasta ári en árin á undan og það sama á við um fíkniefnaakstur. �?á eru þeir ekki margir sem fara yfir leyfðan hámarkshraða, eða þrír til fimm á ári.