Afar áhugaverð sýning verður sett upp um Goslok í Einarsstofu í Safnahúsinu. Um er að ræða afrakstur fjölmargra einstaklinga undir stjórn Péturs Steingrímssonar við söfnun örnefna í Vestmannaeyjum.
Á sýningaspjöldum er dreginn saman fjöldi örnefna og sýnt á myndrænan hátt hvar í landslaginu þau eru. Á borðum verða blöð og penni og eru áhorfendur vinsamlegast beðnir um að rita þar athugasemdir, leiðréttingar eða viðbætur því hugmyndin er að safna saman á einn stað allri þeirri þekkingu sem unnt er að ná í um örnefni í Eyjum. Mikilvægt er að láta nafn og símanúmer fylgja því haft mun verða samband við þá sem koma með gagnlegar upplýsingar. Meðan á sýningu stendur mun áhugahópur um skráningu örnefna í Vestmannaeyjum boða til opins fundar þar sem örnefnin eru skýrð nánar og tekist á um ólíkar túlkanir og staðsetningar sumra örnefnanna.
Söfnun örnefna í nærumhverfi er afar nauðsynleg í nútímanum þar sem sú kynslóð sem þekkti að heita mátti hverja þúfu og gat rakið sögur og viðburði sem þeim tengdust er nú sem óðast að týna tölunni. Meginmarkmiðið er að sú þekking sem fólgin er í örnefnum í nærumhverfi Vestmannaeyja haldi áfram að vera lifandi veruleiki fyrir sem flesta.
Ástæða er til að hvetja sem flesta til að líta við í Einarsstofu og skoða sýninguna.
Fréttatilkynning.