Olís-deild karla í handbolta fór af stað í dag. Fjórfaldir meistarar ÍBV fengu Gróttu í heimsókn í fyrsta leik. Með Eyjamanninn Björgvin Þór Björgvinsson í þjálfarateyminu.
Það er óhætt að segja að engin meistarabragur hafi verið yfir liði ÍBV í dag. Grótta var mikið betri aðilinn á vellinum í fyrri hálfleik og leiddu með sjö mörkum, 11-18.
Eyjamenn komu heldur sterkari inn í seinni hálfleikinn og náðu að vinna muninn hægt og bítandi niður. Gróttumenn voru þó sjálfum sér verstir, brutu klaufalega af sér og voru manni færri stóran hluta af seinni hálfleik.
Eyjamenn komu utar á völlinn í maður á mann vörn þegar 5 mínútur voru eftir og fjögurra marka munur, Gróttu í vil. Gekk sú taktík vel og þegar tuttugu sekúndur voru eftir af leiknum tóku Gróttumenn leikhlé, staðan jöfn 30-30. Ekki tókst þeim að skora úr síðustu sókninni og urðu það því lokatölur.
Mörk ÍBV skoruðu:
Theodór Sigurbjörnsson – 9 / 2
Sigurbergur Sveinsson – 6 / 2
Kári Kristján Kristjánsson – 5 / 2
Grétar Þór Eyþórsson – 3
Hákon Daði Styrmisson – 2
Elliði Snær Viðarsson – 2
Kristján Örn Kristjánsson – 1
Daníel Örn Griffin – 1
Fannar Þór Friðgeirsson – 1
Björn Viðar Björnsson varði sjö skot og Páll Eiríksson fjögur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst