Togarar hafa fiskað með góðum árangri á Austfjarðamiðum í haust. Gullver NS hefur að sjálfsögðu veitt á sínum hefðbundnu heimamiðum og Vestmannaey VE og Bergey VE hafa haldið sig fyrir austan en landað ýmist eystra eða í Vestmannaeyjum. Þá hafa togarar víðs vegar að stundað veiðar út af Austfjörðum og Suðausturlandi og hafa þeir landað afla sínum á Austfjarðahöfnum í ríkari mæli en oftast áður.
Gullver fór í fimm veiðiferðir í septembermánuði og var afli skipsins í þeim samtals 494 tonn. Í októbermánuði fór Gullver í sjö veiðiferðir og þá var aflinn 752 tonn af slægðum fiski. Þessi októbermánuður er besti aflamánuður í sögu skipsins en Gullver hefur verið gerður út frá Seyðisfirði frá því að hann kom þangað nýr árið 1983.
Bergey fiskaði 410 tonn af slægðum fiski í septembermánuði og 450 tonn í október en afli Vestmannaeyjar var 360 tonn í september og 395 tonn í október. Í septembermánuði fóru bæði skipin í sex veiðiferðir en í október fór Bergey í átta og Vestmannaey í sjö.
Þórhallur Jónsson skipstjóri á Gullver segir að haustið hafi verið afar gott. „Aflinn hefur verið með albesta móti að undanförnu og hver veiðiferð hjá okkur hefur ekki tekið nema 2 ½ – 3 ½ sólarhring. Við höfum verið á okkar hefðbundnu miðum og veitt í Berufjarðarál, Hvalbakshalli, Litladýpi og á Fætinum. Síðan höfum við einnig farið norður á Glettinganesflak. Aflinn hefur verið blandaður en uppistaðan er þorskur og ufsi. Það sem er nýtt fyrir okkur er þessi togarafjöldi á miðunum hér eystra. Við höfum oft verið nánast einir á okkar hefðbundnu miðum en nú er fullt af togurum. Það hefur verið eitthvað tregara vesturfrá og þá koma þeir hingað. Við á Gullver erum afar sáttir við fiskiríið og vonandi helst það eitthvað áfram, en mér finnst heldur hafa dregið úr því upp á síðkastið,“ segir Þórhallur.
Jón Valgeirsson skipstjóri á Bergey tekur undir með Þórhalli og segir að aflinn hafi verið afar góður fyrir austan í haust. „Við erum vanir því að vera mikið fyrir austan á haustin og aflinn hefur verið með mesta móti í haust. Við erum mikið að veiða á Breiðdalsgrunni og Litladýpi en svo höfum við farið norður á Tangaflak og Glettinganesflak í þeim tilgangi að reyna við ýsu. Við leggjum mikla áherslu á ýsuveiði en staðreyndin er sú að það hefur oft gengið betur að ná henni en nú í haust. Hinsvegar er nóg af þorski og ufsa og fiskurinn hefur verið mjög góður. Við löndum ýmist fyrir austan eða í Eyjum. Þegar við löndum í Eyjum hefjum við nýja veiðiferð við Eyjarnar en á þessum árstíma fæst ekkert þar nema ufsi og karfi. Síðan er haldið austur og þá glæðist aflinn í öðrum tegundum. Það hefur verið óvenjumikil togaratraffík á Austfjarðamiðum í haust og athyglin hefur verið á þeim miðum,“ segir Jón.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.