Tjón á neysluvatnslögn var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í dag, en í gærkvöldi barst bæjaryfirvöldum bréf frá forstjóra HS Veitna þar sem fram kemur að HS Veitur óski eftir því að segja sig frá eignarhaldi og rekstri vatnsveitunnar í Eyjum.
Bæjarráð ræddi bréfið og fól bæjarstjóra að senda forstjóra HS Veitna svar við umræddu bréfi. Bæjarráð lýsir áhyggjum af þeirri vegferð sem forsvarsmenn HS Veitna eru á gagnvart íbúum í Vestmannaeyjum.
https://eyjar.net/oska-eftir-ad-baerinn-leysi-til-sin-vatnsveituna/
Í bréfi Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra til HS Veitna segir að rétt sé farið með í bréfi HS Veitna hf. að félagið reki vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Aftur á móti gerir Vestmannaeyjabær verulegar athugasemdir við efni bréfsins að öðru leyti.
Ábyrgðin á vatnsveitunni hjá HS Veitum
„Til áréttingar, enn og aftur, þá hafa HS Veitur hf. og forveri þess, rekið vatnsveituna allt frá árinu 2002. Er félagið ekki aðeins rekstraraðili heldur eigandi vatnsveitunnar og stjórnar henni alfarið líka. Hefur fyrirkomulagið verið með þeim hætti á grundvelli kaupa forvera félagsins á vatnsveitunni sem byggir á samningi aðila á milli sem og lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, sbr. nú lög nr. 32/2004.
Samkvæmt samningnum og lögunum er ábyrgðin á vatnsveitunni hjá HS Veitum hf. sem hefur einkarétt á því að selja vatn til Vestmannaeyja. Eigandi vatnsveitunnar er félagið sem fer einnig með alla stjórn hennar í lagalegum skilningi, en ekki Vestmannaeyjabær. Bærinn hefur einfaldlega engar skyldur í þessu sambandi og er ekki bær til að taka ákvarðanir um rekstur og stjórn veitunnar. Einkaréttindum HS Veitna hf. til vatnssölu til Vestmannaeyja samkvæmt lögum og fyrirliggjandi samningum fylgja skyldur sem virðist alveg litið hjá í tilviki félagsins. Það er nefnilega svo að réttindum félagsins fylgja líka skyldur og þetta tvennt verður ekki skilið í sundur.“ segir í bréfi Írisar.
Mótmælir því að bærinn hafi brotið samningsskuldbindingar gagnvart HS Veitum
Þá er því alfarið mótmælt að Vestmannaeyjabær hafi brotið samningsskuldbindingar gagnvart HS Veitum hf. Það er ekki rökstutt eða útskýrt með neinum haldbærum hætti hvernig og hvaða vanefndir hafi átt sér stað en vísað er almennt til ákvæða samnings frá 27. janúar 2009. Um þetta hefur ítarlega verið fjallað um í fyrri bréfaskrifum og vísast til þess sem þar kemur fram og er það ítrekað.
„Vestmannaeyjabær mun að sjálfsögðu standa undir sínum skuldbindingum samkvæmt fyrirliggjandi samningum eins og bærinn hefur ítrekað komið á framfæri við HS Veitur hf. En í þeim skyldum felst ekki, og getur aldrei falist, að Vestmannaeyjabær taki ákvörðun um viðgerð á vatnslögn sem HS Veitur hf. bera ábyrgð á lögum samkvæmt og greiði óskilgreindar fjárhæðir til HS Veitna hf. með því að „leggja til fjármagn bæði til skemmri og lengri tíma“ eins og það er orðað í ykkar bréfi. Kröfugerðir HS Veitna hf., sem ennþá eru óljósar, eru fullkomlega ótímabærar að mati bæjarins enda taldi bærinn að aðilar væru í sameiningu að leita lausna í málinu.
HS Veitur hf. biðlar til Vestmannaeyjabæjar í lok bréfsins að innleysa vatnsveituna. Losa sig þar með undan þeim réttindum og skyldum sem hvíla svo sannanlega á HS Veitum hf. og forverum þess allar götu frá árinu 2002. Hefur þetta verið tekið upp af öllum helstu fjölmiðlum landsins, eins og svosem annað í bréfinu. Tekið skal fram af því tilefni að Vestmannaeyjabær hefur enga innlausnarskyldu á vatnsveitunni, enda ef svo væri myndu HS Veitur hf. eflaust halda því fram í sínu bréfi sem ekki er gert.“
Tilvísun til óháðrar lögfræðilegrar álitsgerðar er mótmælt sérstaklega
Þá segir í bréfi bæjarstjóra: „Tilvísun til óháðrar lögfræðilegrar álitsgerðar eins og það er kallað til stuðnings er mótmælt sérstaklega.
Svo það sé tekið fram í þessu bréfi þá er um er að ræða stutt minnisblað, ekki lögfræðilegt álit (og á þessu tvennu er veigamikill munur), sem unnið var í miklum flýti fyrir innviðaráðuneytið til notkunar þar innanhúss. Við gerð þess minnisblaðs var rætt við og fengin gögn og álit frá HS Veitum hf., en ekki Vestmannaeyjabæ. Þegar af þeirri ástæðu er alls ekki hægt að líta svo á að um óháð eða haldbært gagn sé að ræða. Aðferðafræðin sem lýst hefur verið staðfestir þetta svo varla verður um það deilt. Við minnisblaðið hafa verið gerðar ítarlegar athugasemdir enda var það ekki óháð sem áður greinir, hafði nokkrar rangar forsendur og efnisatriði auk þess sem litið var hjá veigamiklum lögfræðilegum atriðum við gerð þess.“
Ótímabært og taktlaust bréf HS Veitna hf.
„Að síðustu þá er rétt að rekja það að þá hafa verið gerðar kröfur á hendur útgerðinni sem rekur Huginn VE-55 vegna tjónsins sem rakið er í bréfinu. Þekkir HS Veitur hf. þetta mætavel enda sendi félagið kröfu á félagið og krafðist auk þess sjóprófa vegna málsins. Í gær, sama dag og framangreint bréf HS Veitna hf. er sent til bæjarins (og lekið áður til fjölmiðla af hálfu félagsins) hófust sjópróf vegna tjónsins. Verður þeim fram haldið þann 15. febrúar nk. og klárast vonandi þann dag.
Í kjölfar þess að sjópróf verða kláruð og aðrar rannsóknir vonandi samhliða mun tjónvaldur og tryggingafélag hans væntanlega taka afstöðu til bótaskyldu vegna tjónsins. Í framhaldinu verður farið í það að útbúa kröfu um greiðslu tjónsbóta, en óljóst er um fjárhæðir þeirra á þessari stundu. Undirstrika þessar staðreyndir hversu ótímabært og taktlaust bréf HS Veitna hf. í raun og veru er.
Vestmannaeyjabær telur að það séu hagsmunir beggja aðila að halda viðræðum áfram og að aðilar beini frekari bréfum sínum og samskiptum sín á milli en ekki í gegnum fjölmiðla og vinni þannig að heilindum að lausn að málinu.“ segir í bréfi Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra.
https://eyjar.net/segir-orkumalin-i-olestri/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst