Fjöldi glæsilegra fiskveitingastaða í hæsta gæðaflokki í Vestmannaeyjum hlýtur að vera með því mesta sem þekkist á byggðu bóli miðað við íbúatölu.
Þá ályktun dregur að minnsta kosti finnskur blaðamaður, Mika Remes, í grein um veitingaflóru og sjávarfang Vestmannaeyja í grein í tímaritinu Aromi í Finnlandi núna í janúar. Ritið er sérhæft í skrifum um veitingahús og það sem þar er á boðstólum.
Finninn kom til Vestmannaeyja, dvaldi þar í nokkra daga, þræddi sig á milli veitingastaða, spjallaði við eigendur og kokka og rakti sömuleiðis garnir úr Binna í Vinnslustöðinni í tilefni af stofnun dótturfélagsins VSV Finland OY Helsinki á síðasta ársfjórðungi 2022, en umfjöllun finnska blaðsins er einmitt gerð skil á vef Vinnslustöðvarinnar í dag.
Blaðamaðurinn vildi með Íslandsför kynna sér íslenskan fisk og tengda matarhefð. Hann kynntist því jafnframt að í Eyjum væru líka veitingahús í hávegum sem löðuðu að sér viðskiptavini af meginlandinu og úr víðri veröld.
Þetta þótti Finnanum afar merkilegt að heyra en sannfærðist fljótt um að engin tilviljun væri að orðspor veitingamanna Vestmannaeyja flygi um lönd og álfur þegar hann sjálfur hafði kynnt sér starfsemi Einsa kalda, Gott, Næs og Slippsins og tekið til matar síns.
Sjávarfang er fjársjóður Gulleyjunnar
Yfirskrift umfjöllunar á fimm blaðsíðum í tímaritinu Aromi er Aarresaari, sem þýðir bókstaflega Fjársjóðseyjan. Ættum við ekki þá ekki frekar að segja einfaldlega Gulleyjan? Þar með væri komin tilvísun í vinsælustu ævintýrasögu allra tíma eftir Skotann Robert Louis Stevenson. Gulleyjan hans var gefin út 1882 og er til í bókarformi á ótal tungumálum, þar á meðal á íslensku. Þá hefur sagan verið kvikmynduð yfir fimmtíu sinnum!
Tónninn í skrifum finnska blaðamannsins er þannig að fyrir honum var heimsóknin til Vestmannaeyja hreint ævintýri. Hann upplifði dvöl á sjálfri Gulleyjunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst