Knattspyrnudeild ÍBV boðaði til blaðamannafundar í dag kl. 18.00 með tiltölulega skömmum fyrirvara. Á fundinum skrifuðu Gary John Martin og Halldór Páll Geirsson undir áframhaldandi samninga við ÍBV og munu þeir því leika með ÍBV í Inkasso deildinni næsta sumar.
Halldór Páll er fæddur og uppalinn Eyjamaður, er markmaður og hann mun koma inn í þjálfun hjá ÍBV samkvæmt því sem kom fram á fundinum. Gary Martin þarf ekki að kynna fyrir knattspyrnuáhugamönnum og greindi formaður knattspyrnuráðs frá því að Gary hefði að eigin frumkvæði óskað eftir því að vera áfram í Vestmannaeyjum og spila með ÍBV.
Það er því ljóst að blásið verður til sóknar á næsta tímabili og stefnan sett aftur á meðal þeirra bestu.