Minningartónleikar um Árna Johnsen, söngvaskáld, blaðamann og fyrrverandi alþingismann, voru haldnir á Vigtartorgi á laugardagskvöldi goslokahátíðar, 6. júlí. Hópur valinkunnra tónlistarmanna minntist þar Árna í tali og söng. Flutt voru lög sem gjarnan voru á efnisskrá Árna þegar hann skemmti á mannamótum eða stýrði brekkusöng á Þjóðhátíð.
Veðrið var eins og það verður fallegast á sumarkvöldi í Vestmannaeyjum. Ágætlega var mætt þegar tónleikarnir hófust og bættist stöðugt í hópinn eftir því sem á tónleikana leið og var góð mæting.
Aðal flytjendur voru Þórarinn Ólason dægurlagasöngvari, Unnur Ólafsdóttir söngkona, Sigurmundur Gísli Einarsson, gítar og söngur, Gísli Helgason, söngur, munnharpa og blokkflautur, Jarl Sigurgeirsson, gítar og söngur, Sæþór Vidó, gítar og söngur, Magnús R. Einarsson, gítar, Grímur Gíslason, slagverk, Páll Viðar Kristinsson, harmónikka og Kristinn Jónsson, bassagítar.
Segja má að takturinn hafi verið gefinn í fyrsta laginu, Við brimsorfna kletta. Tónleikagestir tóku vel undir og vögguðu sér í takt við Vestmannaeyjavalsinn. Svo fylgdu lög eins og Úti í Ystakletti, Sæsavalsinn, Bjartar vonir vakna, Blítt og létt, Kátir voru karlar, Hreðavatnsvalsinn, Dísa í dalakofanum og Eyjan mín í bláum sæ eftir Árna Johnsen svo nokkur lög séu nefnd.
Sigurmundur skemmti tónleikagestum með mörgum sögum af Árna og rifjaði upp kynni sín af honum. Einnig rifjaði Gísli Helgason upp eftirminnilega tónleika með Árna og Stefáni Stórval Jónssyni frá Möðrudal á Hvítabandinu, sem þá var deild frá geðdeild Borgarspítalans. Yfirhjúkrunarfræðingur Hvítabandsins sá ástæðu til að hafa samband við Gísla til að afþakka frekari söngskemmtanir þeirra félaga á deildinni. Einn sjúklinganna hafði fengið svo óstöðvandi hláturskast á skemmtuninni að það þurfti að sprauta hann niður! Gísli sagði einnig frá tilurð lags síns, Kvöldsigling, sem var flutt á tónleikunum.
Jarl Sigurgeirsson, skólastjóri tónlistarskólans og stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja, minntist þess hvílík hamhleypa Árni heitinn var og hve miklu hann kom í verk um ævina. Hann nefndi m.a. Sólarsvítuna, sem er samsett úr 18 lögum eftir Árna, og var hljóðrituð af sinfóníuhljómsveit Úkraínu. Einnig var hljóðrituð önnur útgáfa með grískum bazúkíleik. Þá var verkið útsett fyrir lúðrasveit og kór og æft og flutt í Vestmannaeyjum. Jarli nefndi hvað laglínurnar voru glaðlegar og verkið allt mikill gleðigjafi. Þá rifjaði hann upp að Árni Johnsen var upphafsmaður brekkusöngsins á Þjóðhátíð Vestmannaeyja.
Sérstakur gestur á tónleikunum var Árni Sigfússon, fyrrverandi borgarstjóri og bæjarstjóri og frændi Árna heitins Johnsen. Hann samdi lagið og textann Heimaey um hvað margir myndu snúa aftur til Heimaeyjar eftir gosið. Lagið flutti hann ásamt Ómari Sigurbergssyni í hljómsveitinni Brynjólfsbúð. Það var hljóðritað og gefið út á hljómplötu Eyjaliðsins árð 1973. Árni söng lagið og honum til aðstoðar voru söngkonurnar Védís Hervör og Sigga Ósk. Góður rómur var gerður að flutningi þeirra.
Þegar síðasta lagið á dagskránni hafði verið sungið vildu áheyrendur heyra meira og voru flutt aukalög. Síðast var Þykkvabæjarrokk, texti Árna Johnsen við lag Leadbelly, og tóku viðstaddir mjög vel undir í bragnum um kartöflugarðana heima.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst