Á fimmtudaginn sendi óbyggðanefnd frá sér yfirlýsingu vegna endurskoðaðra þjóðlendukrafna fjármála- og efnahagsráðherra. Endurskoðunin er vegna eyja og skerja umhverfis landið. Meðal krafna eru að ríkið eignist allar úteyjarnar í Vestmannaeyjaklasanum.
Sjá einnig: Ríkið ásælist enn úteyjarnar
Jóhann Pétursson er annar tveggja lögmanna Vestmannaeyjabæjar í málinu. Hann segir í samtali við Eyjafréttir að það jákvæða við breytta kröfugerð fjármálaráðherra sé að ekki er lengur verið að gera kröfur í Heimaey að undanskildum Stórhöfða sem var undanskilinn við sölu á Vestmannaeyjum til bæjarins árið 1960 og því má hafa skilning á því að Stórhöfði teljist ríkiseign.
„Hitt eru ákveðin vonbrigði að enn er verið að ásælast úteyjar og með sömu rökum og áður en í engu útskýrt hvers vegna sala á Vestmannaeyjum í heild sinni frá ríkinu til bæjarins 1960 réttlæti þá kröfulýsingu. Virðist lítið tillit hafa verið tekið til innsendra athugasemda t.a.m. er enn í kröfulýsingu fjármálaráðherra fullyrt að Eyjarnar hafi utan landnáms og enn og aftur vísað í rangar heimildir í Landnámu hvað varðar landnám Vestmannaeyja. Bara það eitt, sem er svona augljóst atriði, fær mann til að velta fyrir sér í hverju endurskoðunin var fólgin.“ segir Jóhann.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst