Vestmannaeyjabær samdi í október í fyrra við Terra um sorphirðu og sorpförgun í Vestmannaeyjum. Kostnaðaráætlun bæjarins nam tæpum 263 milljónum og tvö gild tilboð bárust en þriðja tilboðið, tilboð Kubbs var metið ógilt.
Með nýju samningunum er verið að uppfylla reglur sem kveða á um að íbúar þurfi að bera beinan kostnað af sorpförgun á því sem þeir sjálfir farga. Fengu margir bæjarbúar „hland fyrir hjartað“ þegar verðskráin var kynnt fyrir nokkru enda hefur sorpförgunin verið gjaldfrjáls hingað til og greidd með útsvari bæjarbúa. Enda er sorp bæði erfitt til mælinga bæði varðandi þyngd og rúmmál og meginhluti þess sem iðulega er hent er loft.
Eyjafréttir hafa aflað upplýsinga um sorpkostnað síðustu ár frá bænum. Þannig var magn frá íbúum árið 2023, í rúmmetrum talið, frá losuðum gámum á gámasvæðinu upp á hrauni alls rúmir 15 þúsund rúmmetrar, þar af var magn þess sem nú er gjaldskylt rúmlega 12 þúsund rúmmetrar. Að teknu tilliti til þeirrar gjaldskrár sem kynnt var nýlega yrði kostnaður af förgun þessa magns um 188 milljónir.
Það reyndist blaðamanni Eyjafrétta dálítið snúið að átta sig á hvernig kostnaður við sorpförgun myndi breytast með nýjum samningi. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur kostnaður numið á bilinu 206-258 milljónum á síðustu þremur árum og er þá sorphirða í þéttbýli, fastur kostnaður sorpstöðvar og sorpmóttaka tekin með í þann útreikning en allur sorpkostnaður sem fyrirtæki greiða er ekki hluti af því.
Samkvæmt nýja samningnum mun kostnaður vegna sorphirðu hækka um 10% en á móti kemur lækkar fastur kostnaður sem sveitarfélagið greiðir fyrir þjónustuna. Sveitarfélagið gerir ráð fyrir að kostnaður vegna sorpmóttökustöðvar muni nema um 94 milljónum á þessu ári og má gera ráð fyrir því að það sé fyrst og fremst vegna grenndargáma, sorps frá stofnunum bæjarins og kostnaðar sveitarfélagsins af sorplosun fyrstu tvo mánuði ársins á meðan hún var gjaldfrjáls til íbúa.
Ef bætt er við fyrrnefndum útreikningi á kostnaði við sorplosun sem íbúar greiða beint má búast við að kostnaður við sorplosun íbúa, í gegnum sveitarfélagið og beint, muni því hækka um 40-50%.
Ofangreind tafla byggir á fjárhagstölum frá sveitarfélaginu og nálgun Eyjafrétta á hugsanlegum kostnaði sem íbúar myndu greiða beint til Terra á þessu ári (um 80% af ofangreindum 188 milljónum). Lesendur ættu auðvitað að taka slíkum útreikningi með eðlilegum fyrirvörum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst