Ég byrjaði 1962 að vinna í rörunum og sjálfstætt frá árinu 1972. Ég lærði hjá Sigursteini Marinóssyni í Miðstöðinni. Þetta eru orðin heil 63 ár,“ segir Grétar Þórarinsson, pípulagningameistari sem enn er á fullu þó orðinn sé 84 ára. ,,Maður er kannski eitthvað farinn að slá af en áhuginn heldur manni gangandi,“ bætir hann við og brosir.
Fyrirtækið heitir Grétar Þórarinsson ehf. og þar starfar hann með syninum Guðjóni sem einnig er meistari í iðninni. ,,Ég byrjaði í bílskúrnum heima og fluttum á Heiðarveg 6, árið 1996 og opnuðum um leið verslun sem í dag skartar meðal annars af miklu úrvali af gjafavörum, sængurfötum og garni og öllu til prjónaskapar.“
,,Við bjóðum upp á almenna þjónustu í pípulögnum, nýlagnir og viðgerðir og þjónustu við bátaflotann. Bátarnir þurfa líka vatn, hita og frárennsli eins og við í landi,“ segir Guðjón. ,,Við sinnum mest heimilum og erum alltaf til þjónustu reiðbúnir. Svíkjum engan,“ bætir hann við og hlær.
Enn með lærlinga
Þeir hafa verið með lærlinga í gegnum árin og núna er Ingibergur Sigurbjörnsson í læri hjá þeim. ,,Hann hefur verið hjá okkur í tæp tvö ár. Það er gaman að taka þátt í að mennta iðnaðarmenn framtíðarinnar og hressandi að fá inn nýtt blóð,“ segir Grétar og þeir líta björtum augum á það sem framundan er. ,,Það er mikill uppgangur í Vestmannaeyjum og mikið að gera hjá öllum iðnaðarmönnum. Við finnum það alveg en nú eins og áður byggist þetta á traustum viðskiptavinum. Við reynum að vera með sem mest á lager, rör, fittings, ofna, vaska, hreinlætistæki og annað sem þarf. Auðvitað hefur margt breyst frá því pabbi byrjaði árið 1962. Allt orðið meðfærilegra og þægilegra að vinna með en í grunninn er þetta alveg eins. Lagnir utan húss og innan, lagnir fyrir heitt og kalt vatn og blessað klóakið. Þar saknar maður ekki gömlu steinssteypuröranna sem plaströrin hafa leyst af hólmi. Er þetta gott dæmi um þær breytingar til batnaðar sem orðið hafa í greininni. En fyrst og fremst erum við þakklátir fyrir góða kúnna,“ segir Guðjón að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst