Svo virðist sem ekkert hafi gerst í máli sem setja þurfti í forgang að lagfæra fyrir tæpu ári síðan. Um er að ræða göngustíginn á Heimaklett.
Eyjafréttir fjölluðu um málið í september sl. og þar kom fram að það væri mat starfshóps sem falið var að skoða innviði með tilliti til ferðaþjónustu í Eyjum að gönguslóði á Heimakletti væri afar illa farinn og það væri forgangsatriði að laga hann. Undir þetta tók bæjarráð Vestmannaeyja og kom fram i afgreiðslu ráðsins sl. sumar að Heimaklettur sé forgangsverkefni og að huga þurfi að framlagi sveitarfélagsins, gera áætlun og kostnaðarmeta.
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti í fyrra styrk að fjárhæð 11.180.000 til verkefnisins. Styrkir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða miðast við 80% af áætluðum heildarkostnaði verkefnis hverju sinni en gert er ráð fyrir 20% mótframlagi sem getur verið í formi vinnuframlags.
Eyjafréttir ræddu málið við Brynjar Ólafsson, framkvæmdarstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar sl. haust og sagði hann þá að næsta skref sé að fá stígahönnuð til að leysa þetta krefjandi verkefni og koma með tillögu að lagfæringum. „Áætlað er að nýta vetrarmánuði undir þessa hönnunarvinnu og hefja lagfæringar næsta vor,“ sagði Brynjar í september.
Eyjafréttir settu sig í samband við Brynjar í byrjun vikunnar til að kanna hvort að framkvæmdir væru hafnar við stíginn og hvað hafi komið út úr vinnu stígahönnuðarins.
Í svari Brynjars segir að framkvæmdir séu ekki hafnar. „Hönnun á lagfæringu liggur ekki fyrir og því kostnaður við það ekki heldur. Einnig liggja þvi ekki áætluð verklok nákvæmlega fyrir,“ sagði hann í svari sínu.
Af þessum svörum að dæma lítur út fyrir að veturinn hafi alls ekki verið nýttur til undirbúnings á verkinu. Stígurinn á klettinn er mjög fjölfarinn og er eins og áður segir talið brýnt að ráðast í lagfæringar af öryggisástæðum.
Hallgrímur Rögnvaldsson átti sæti í starfshópnum sem mat verkið sem forgangsmál. Hann segir í samtali við Eyjafréttir að það séu vissulega vonbrigði að tíminn í vetur hafi ekki verið nýttur til undirbúnings líkt og talað hafi verið um.
„Þrátt fyrir hvatningu okkar um að halda þessu starfi áfram þá hefur það hlotið lítinn hljómgrunn. Starfsmenn Vestmannaeyjabæjar þurfa eðlilega að fá hvatningu frá kjörnum fulltrúum til að vinna að þessum brýnu málum. Það er dapurt að vita til að það er komin fjárveiting í þetta verk úr utanaðkomandi sjóði en ekkert gerist hér innanbæjar. Ástand þessarar gönguleiðar slíkt að hún er orðin hættuleg á köflum og það er ábyrgðarhluti að hunsa slíkt ástand,“ segir Hallgrímur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst