Dýpkunarskipið Álfsnes, sem unnið hefur að dýpkun í og við Landeyjahöfn undanfarnar vikur, verður lengur í slippnum í Hafnarfirði en upphaflega var áætlað. Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við Eyjafréttir.
Álfsnes fór í slipp á mánudaginn vegna bilunar sem kom upp í skipinu, eins og fram kom í frétt Eyjafrétta í byrjun vikunnar. Þar sagði að gert væri ráð fyrir að skipið kæmi aftur til starfa um helgina, en nú liggur fyrir að það tefst eitthvað.
„Dýpið er gott núna en Álfsnesið verður eitthvað lengur í slippnum en áætlað var í upphafi,“ segir G. Pétur. Hann bætir við að Vegagerðin eigi fund með eigendum skipsins á mánudag um slipptökuna og framvinduna þar.
„Veðrið næstu daga lítur út fyrir að verða fínt svo við búumst ekki við miklum breytingum á dýpi á næstu dögum,“ segir hann ennfremur. Horfur eru því áfram góðar fyrir siglingar Herjólfs í Landeyjahöfn enda er ölduspáin nokkuð hagstæð næstu daga.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst