Herjólfur ohf. hefur sent frá sér tilkynningu þar sem greint er frá breytingum á siglingum til Landeyjahafnar í dag og næstu daga.
Í tilkynningunni kemur fram að siglt verði á flóði í dag, mánudag, með brottförum frá Vestmannaeyjum kl. 17:00 og 19:30, og frá Landeyjahöfn kl. 18:15 og 20:45. Ferðir kl. 22:00 og 23:15 falla niður og eru farþegar sem áttu bókað í þeim ferðum beðnir um að hafa samband við skrifstofu Herjólfs til að færa bókanir sínar.
Þá segir jafnframt að á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag verði einnig siglt til Landeyjahafnar á flóði. Á þeim dögum verði brottfarir frá Vestmannaeyjum kl. 07:00, 09:30, 17:00 og 19:30, og frá Landeyjahöfn kl. 08:15, 10:45, 18:15 og 20:45. Á sömu dögum falla brottfarir kl. 12:00, 13:15, 14:30, 15:45, 22:00 og 23:15 niður samkvæmt tilkynningunni.
Í tilkynningu Herjólfs kemur einnig fram að dýpkun í Landeyjahöfn hefjist seinnipartinn í dag, en aðstæður til dýpkunar séu sagðar góðar næstu daga. Ákvörðun um siglingar á föstudag og um helgina verður tekin síðar og verður ný tilkynning send út á fimmtudag, segir að lokum í tilkynningu félagsins.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst