Í gær kom upp atvik í áframeldi Laxeyjar þegar hluti tæknibúnaðar í stöðinni varð óvirkur í stutta stund. Leiddi það til þess að fiskur barst inn í fráveitukerfi. Að sögn Daða Pálssonar framkvæmdarstjóra Laxeyjar, átti atvikið sér stað við venjubundna innri flutninga innan áframeldisins. Umfang óhappsins liggur ekki nákvæmlega fyrir en skjótt hafi verið brugðist við þannig að einungis hafi fáeinir fiskar komist til sjávar. Talið er að sá fiskur hafi litlar eða engar lífslíkur.
Daði segir að viðbragðsáætlanir fyrirtækisins hafi verið virkjaðar og viðeigandi aðilar upplýstir án tafar. „Já, við brugðumst skjótt við og upplýstum hlutaðeigandi aðila í samræmi við okkar viðbragðsáætlun,“ segir hann og staðfestir að yfirvöld hafi verið upplýst um málið.
„Laxey lítur málið alvarlegum augum þar sem fyrirtækið hefur sett sér það markmið um að útiloka að atvik af þessu tagi geti gerst,“ segir hann. Næstu skref felast í því að fara yfir alla verkferla og búnað sem tengjast flutningum innan áframeldisins. Markmiðið er að tryggja að öll umgjörð og búnaður verði með þeim hætti að sambærilegt atvik geti ekki endurtekið sig.
Að lokum segir Daði afstöðu fyrirtækisins skýra. „Við hjá Laxey hörmum óhappið og erum staðráðin í að ganga úr skugga um að atvik af þessu tagi endurtaki sig ekki. Öryggiskerfið okkar er gott en þarna varð röð atvika til þess að hluti tæknibúnaðar gaf sig stutta stund. Með skjótum viðbrögðum urðu áhrif atviksins þó hverfandi. Metnaður okkar til að gera vel er mikill og við tökum þetta atvik engu að síður mjög alvarlega,“ segir hann.
Uppfært kl. 12.30.
Fram kemur á vef Matvælastofnunar að stofnuninni hafi borist tilkynning þriðjudaginn 16. desember 2025 frá Laxey í Vestmannaeyjum vegna stroks úr eldisstöð þeirra í Viðlagafjöru.
Samkvæmt upplýsingum frá rekstrarleyfishafa varð óhapp við flutning milli tanka í eldisstöðinni og í kjölfarið hafi fundust dauðir fiskar í fjöruborðinu þar sem fráveitan frá eldinu liggur. Fyrir liggja upplýsingar frá rekstrarleyfishafa um að tveir laxar hafi sloppið lifandi út í sjó. Rekstrarleyfishafi virkjaði strax viðbragðsáætlun vegna stroks, lagði út net og hóf veiðar.
Í umræddu eldiskeri voru 142.242 fiskar og meðalþyngd þeirra 2.2 kg.
Matvælastofnun rannsakar málið. Stofnunin telur að ekki sé hægt að útiloka að fleiri laxar hafi strokið. Stofnunin hefur kallað eftir frekari gögnum frá Laxey sem gætu varpað skýrari ljósi á atvikið.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst