Jólin eru tími hefða og notalegra samverustunda og fátt er betra á aðfangadag en að gæða sér á góðum mat og ljúffengum eftirréttum. Anna Lilja Tómasdóttir er ein þeirra sem eiga auðvelt með að galdra fram gómsæta rétti að sögn ættingja og vina. Við fengum að skyggnast í jólauppskriftir Önnu Lilju sem deildi með okkur tveimur eftirréttum sem eiga sérstakan stað í hjarta hennar.
,,Ég er frekar hefðbundin þegar kemur að jólum. Fyrir ansi mörgum árum þá var ég alltaf hjá ömmu minni Jönu þegar hún gerði frómas fyrir jólin og eftir að hún hætti að treysta sér að gera hann gerði ég hann, fyrst hjá henni og svo heima hjá mér og færði henni. Þegar hún var svo komin á Hraunbúðir þá fór ég til hennar með sitthvora skálina og við borðuðum hann saman og áttum yndislega stund. Þegar ég geri hann í dag fæ ég alltaf hlýtt í hjartað og hugsa til hennar.“
Hún bætir við að þó séu ekki allir fjölskyldumeðlimir jafn hrifnir af frómasinum, þannig hún geri alltaf líka Toblerone ís sem allir eru sáttir með.
Frómasinn hennar ömmu Jönu
Matarlímið brætt við vægan hita ásamt safanum úr báðum dósum ( ekki alveg allur safinn) og smá vatni. Rauður og sykur þeytt saman og restinni af safanum blandað við þegar þetta er orðið stífþeytt. Eggjahvítur þeyttar sér og rjóminn þeyttur sér. Öllu blandað saman og smá safa úr sítrónu bætt út í. Þetta fer í 2 skálar, í aðra sker ég niður perur og set í bitum út í og ananas í bitum í hina.
Toblerone ís
Eggjarauður og púðursykur þeytt mjög vel. Blanda rifnu súkkulaðinu og vanilludropunum saman við. Þá er þeyttum eggjahvítum og þeyttum rjóma bætt við. Sett í fallegt form og fryst. Fyrir þá sem ekki vilja Toblerone má alveg nota Daim í staðinn.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst