Saltfiskur frá Eyjum afar vel þegin jólagjöf í Portúgal
saltfisktre.jpeg

Tveggja metra hátt jólatré úr saltfiski blasir við á matartorgi stórrar verslunarmiðstöðvar í Portúgal á aðventunni. Það segir allt sem segja þarf um virðingarsess saltfisks í jólahefðum Portúgala og þar hefur íslenskur saltfiskur sérstöðu.

Á aðfangadagskvöld er gefið mál að saltfisk og saltfiskrétti sé að finna á langflestum veisluborðum fjölskyldna um allt Portúgal.

„Helstu forsendur fullkominnar hátíðarmáltíðar eru stór, íslenskur saltfiskur, góð ólívuolía og gott rauðvín! Íslenskur saltfiskur er þekktur fyrir gæði og fyrir hann eru menn einfaldlega til í að borga meira en fyrir annan saltfisk á markaðinum.

Í desember seljum við meira en á öðrum tímum ársins og stemningin er mikil og skemmtileg,“ segir Nuno Araújo, framkvæmdastjóri Grupeixe, framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtækis fyrir saltfisk í borginni Aveiro í norðurhluta Portúgals. Vinnslustöðin eignaðist Grupeixe og tók við rekstri fyrirtækisins um mitt ár 2019.

„Við seljum fisk mest í verslanir og mötuneyti en í desember kaupa fyrirtæki líka saltfisk til að gefa starfsmönnum sínum eða viðskiptavinum í tilefni jóla. Ég get nefnt líka að stjórnvöld í borg í grenndinni voru að kaupa af okkur 550 fiska til að færa borgarstarfsmönnum sínum í jólagjöf.

Það þykir höfðingsskapur að gefa íslenskan saltfisk og sérlega eftirsóknarvert að fá slíka gjöf frá atvinnurekanda sínum!

Núna í desember koma fjölskyldur hingað í vinnsluna til okkar til að velja sér saltfisk til að gefa eða borða um jólin. Þannig erum við í milliliðalausu sambandi við neytendur. Í þessum heimsóknum skapast alveg sérstök hátíðarstemning í fyrirtækinu okkar.“

Mestu þorskneytendur veraldar

Leiðir Vinnslustöðvarinnar og Portúgala í saltfiskviðskiptum hafa legið saman um árabil. Portúgalar eru umsvifamestu neytendur þorsks í heiminum. Þeir vilja saltfiskinn verkaðan á nokkuð annan hátt en til að mynda Spánverjar og Ítalir.

Toppur tilverunnar á aðfangadagskvöldi er að fá á veisluborðið þorsk, veiddan á vetrarvertíð við suður- og vesturströnd Íslands og saltaðan í samræmi við smekk og kröfur Portúgala.

Vinnslustöðin er fyrsta erlenda fyrirtækið sem eignast saltfiskfiskvinnslufyrirtæki í Portúgal og gerist þar með beinn þátttakandi í rótgrónum atvinnurekstri með tilheyrandi hefðum og sögu.

Grupeixe kaupir þorsk frá Íslandi, Noregi, Rússlandi og víðar að til að þurrka og dreifa á mörkuðum sínum.

  • Hvernig matreiða svo Portúgalar saltfiskinn okkar? Góð spurning hjá þjóð sem hefur fram á allra síðustu ár helst ekki gert annað við þessa lúxusvöru en að henda henni í pott í bitum, sjóða og bera á borð með kartöflum, smjöri eða bræddri feiti/hömsum!
  • Sagan segir að portúgölsk meðalfjölskylda ráði yfir 365 uppskriftum að saltfiskréttum, einni fyrir hvern dag ársins. Allt í allt séu að minnsta kosti þúsund saltfiskuppskriftir þekktar í Portúgal og þar er ekki íslenska „uppskriftin“ meðtalin …
  • Í Morgunblaðinu 28. nóvember 2008 var birt viðtal við Guðlaugu Rún Margeirsdóttur, þá nýflutta til Íslands eftir að hafa búið í 20 ár í Portúgal. Hún fjallar um jólasiði og matarsiði Portúgala og birtir uppskrift að saltfiskrétti sem hún hugðist bera á borð þá á jólum.

Nýjustu fréttir

Minningar um gos – söngvar og sögur í Eldheimum
„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.