Sinubruni hefur brotist út í Heimakletti. Eldurinn logar í gróðri á toppi fjallsins og sést vel víða um bæinn. Heimaklettur er hæsta fjall Vestmannaeyja, stendur 279 metra yfir sjávarmáli og er eitt helsta kennileiti eyjanna. Eldurinn er því mjög áberandi og hefur vakið athygli íbúa og gesta.
Friðrik Páll Arngrímsson, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Vestmannaeyja, segir í samtali við Eyjafréttir að tveir menn frá slökkviliðinu hafi farið upp með klöppur til að slökkva eldinn. „Það hjálpar líka hvað það er gott veður,“ segir Friðrik Páll, en sinubruni getur breiðst hratt út, sérstaklega ef vindur er mikill og gróður þurr.
Að sögn hans kviknaði í út frá kertum, og virðist hafa kviknað í á þremur stöðum á klettinum. „Friðarkerti eru ekki alltaf til friðs,“ bætir hann við, en þess má geta að búið er að kveikja á friðarkertum víðsvegar um klettinn í tilefni af þrettándagleði ÍBV. Fleiri myndir og myndband má sjá hér að neðan. Myndefni: Halldór B. Halldórsson og Óskar P. Friðriksson.























Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst