Margrét Lára Viðarsdóttir hlýtur Fréttapýramídann í ár fyrir framlag sitt til íþrótta. Margrét Lára er ein allra besta fótboltakona sem Ísland hefur alið og á að baki ákaflega glæsilegan feril, bæði hér á landi og erlendis. Hún er réttnefnd drottning íslenskrar knattspyrnu,“ sagði Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta, þegar hann afhenti Margréti Láru viðurkenninguna.
Margrét Lára spilaði upp alla yngri flokka hjá ÍBV og Tý og var komin í meistaraflokk ÍBV aðeins 14 ára gömul. Hún vann titla með öllum yngri flokkum félagsins og varð bikarmeistari með ÍBV í meistaraflokki árið 2004. Margrét spilaði þar á eftir með Val og vann þar fjölmarga titla sem og einstaklingsverðlaun áður en hún hélt út í atvinnumennsku. Erlendis lék hún með Turbine Potsdam og Duisburg í Þýskalandi, auk Kristianstad og Linköping í Svíþjóð. Margrét kom heim aftur árið 2016 og lék með Val til ársins 2019, þegar hún lagði skóna á hilluna.
Á ferlinum varð Margrét Lára fjórum sinnum Íslandsmeistari, einu sinni bikarmeistari og fimm sinnum markahæst í deildinni hér heima. Þá varð hún einu sinni markahæst í sænsku deildinni og þrisvar sinnum í Meistaradeild Evrópu.
Í 143 leikjum í efstu deild á Íslandi skoraði Margrét Lára 207 mörk. Þá skoraði hún 18 mörk í 21 bikarleik og 21 mark í tólf Evrópuleikjum.
Margrét Lára á að baki 124 landsleiki og 79 mörk og er markahæst í sögu íslenska landsliðsins. Hún tók þátt í tveimur stórmótum með landsliðinu, árin 2009 og 2013. Margrét Lára var valin íþróttamaður ársins árið 2007.