Árlegur tekjumunur á skerðanlegum flutningi og forgangsflutningi raforku nemur um 140 milljónum króna eftir að tveir nýir sæstrengir voru lagðir til Vestmannaeyja, en með þeim varð raforkuöryggi í Eyjum með því besta sem gerist á landinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsnet vegna umræðu um aukinn raforkukostnað fyrirtækja á borð við Vinnslustöðina og Herjólf.
Í tilkynningunni segir að töluverð umræða hafi verið undanfarið um aukinn kostnað fyrirtækja eins og Vinnslustöðvarinnar og Herjólfs við raforkukaup í kjölfar lagningar tveggja nýrra sæstrengja til Vestmannaeyja. Rétt er að kostnaður þeirra hefur aukist, en árlegur tekjumunur á skerðanlegum flutningi og forgangsflutningi eru um 140 milljónir króna.
Með nýjum rafstrengjum til Vestmannaeyja er raforkuöryggi þar orðið með því besta sem gerist á landinu. Áður var afhendingaröryggi ótryggt og mögulegt að skerða flutning til Eyja. Gjaldskráin miðaðist við þessa staðreynd og nutu fyrirtæki því afsláttar á flutningi raforku á meðan þannig var. Eftir að nýju strengirnir voru teknir í notkun greiða fyrirtæki í Vestmannaeyjum nú sama gjald fyrir flutning raforku og aðrir.
Stjórnvöld hafa ákveðið að stefna skuli að fullu raforkuöryggi um allt land og þessi sérstöku afsláttarkjör munu því hverfa samfara bættu afhendingaröryggi. Í Landeyjarhöfn er enn um að ræða ótryggan og skerðanlegan raforkuflutning og það er ástæða þess verðmunar sem framkvæmdastjóri Herjólfs og bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar hafa bent á.
Ástæða þess að það er dýrara fyrir fyrirtæki sem reka fiskimjölsverksmiðjur að kaupa raforku er að þau nota mikla orku í skamman tíma en þurfa sömu flutningsgetu og þeir sem þurfa jafnt aðgengi að raforku allt árið. Kostnaðurinn við flutning raforkunnar verður því hlutfallslega hærri hluti af orkukostnaði fyrirtækja eins og Vinnslustöðvarinnar sem framleiða fiskimjöl aðeins hluta úr ári.
Fyrirtækin hafa bent á að kostnaður við notkun olíu geti í sumum tilfellum verið lægri en kaup á raforku og telja að verðskrá Landsnets ætti að taka mið af þeirri staðreynd í þágu orkuskipta. Verðskrá Landsnets tekur fyrst og fremst mið af kostnaði við fjárfestingar og uppbyggingu orkukerfisins.
Nýir strengir og bættir innviðir styðja vissulega við orkuskipti en stuðningur við sérstakar atvinnugreinar á ekki heima í verðskránni að mati Landsnets, enda þýddi slíkur stuðningur að gjaldkrá þyrfti að hækka hjá öðrum notendum á móti. Heppilegra er að slíkur stuðningur fari í gegnum t.d. loftslags- og orkusjóð, sem er sérstaklega ætlað að styðja við orkuskiptin, segir í tilkynningu Landsnets.