Kvennalið ÍBV í handbolta vann mikilvægan eins marks sigur á Fram, 32-31, í 15. umferð Olís deildar kvenna í Eyjum í kvöld.
Fram konur byrjuðu leikinn betur og komust í 0-3 á upphafs mínútum leiksins. Eyjakonur náðu að jafna og var jafnræði með liðunum næstu mínútur. Eftir stundarfjórðung komst ÍBV þremur mörkum yfir, 10-7. Fram jafnaði leikinn í 13-13 en Eyjakonur fóru með tveggja marka forystu inn í hálfleik, 20-18.
ÍBV var með eins til tveggja marka forystu í seinni hálfleik þangað til stundarfjórðungur var til leiksloka, þegar Fram jafnaði í 24-24. Eyjakonur gáfu í og komust fjórum mörkum yfir, 30-26, þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. Lokakafli leiksins var afar spennandi en Fram jafnaði leikinn í 30-30 þegar fjórar mínútur voru eftir. Þegar aðeins 20 sekúndur voru til leiksloka var staðan 31-31 en á loka sekúndu leiksins skoraði Kristrún Ósk Hlynsdóttir sigurmark ÍBV úr vinstra horninu. Lokatölur leiksins 32-31.
Birna Berg Haraldsdóttir átti stórleik í liði ÍBV og var markahæst með tíu mörk. Amalia Frøland varði fimm skot í marki Eyjakvenna og Ólöf Maren Bjarnadóttir tvö.
Eftir sigurinn er ÍBV með 24 stig í öðru sæti deildarinnar á meðan Fram er í fjórða sæti með 15 stig.
Mörk ÍBV: Birna Berg Haraldsdóttir 10 mörk, Sandra Erlingsdóttir 5, Ásdís Halla Hjarðar 4, Alexandra Ósk Viktorsdóttir 3, Agnes Lilja Styrmisdóttir 3, Kristrún Ósk Hlynsdóttir 2, Ásta Björt Júlíusdóttir 2, Birna María Unnarsdóttir 2, Magdalena Jónasdóttir 1.
Eyjakonur eiga næst leik gegn KA/Þór á Akureyri, laugardaginn 7. febrúar kl. 14:30.