Málmsuða i höfn og stefnt næst á vélstjórann

„Ég fór í raunfærnimat fyrir norðan og fékk málmsuðuréttindin þannig. Upphaflega byrjaði ég í vélstjórnarnámi en hafði bara engan áhuga á því þá að sitja á skólabekk. Sé hins vegar núna að gott væri að hafa vélstjórann. Ætli endi ekki með því að ég taki hann líka,“ segir Sigdór Yngvi Kristinsson, starfsmaður Hafnareyrar, nýútskrifaður með sveinspróf í málmsuðu frá Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Raunfærnimatið kom honum vel, möguleiki sem býðst reyndum starfsmönnum til að ljúka sveinsprófi í nokkrum iðngreinum, svo sem húsasmíði, málaraiðn, pípulögnum, blikksmíði, rennismíði, stálsmíði, vélvirkjun og framreiðslu. Raunfærnimat er í senn leið til að stytta nám og hvatning til að ljúka því. Skilyrði er að viðkomandi sé orðinn 23 ára og hafi staðfesta starfsreynslu í þrjú ár.

„Ég sótti þriggja daga námskeið fyrir matið í Verkmenntaskólanum á Akureyri, var svo tekinn í munnlegt próf og spurður spjörunum úr. Í verklega prófinu voru sett fyrir mig ferns konar rafsuðuverkefni. Þetta gekk ágætlega allt saman.

Upphaflega byrjaði ég á vélstjórnarbraut Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum en hreinlega nennti ekki að vera í skólanum! Það þvældist líka fyrir mér að vera hrikalega lesblindur en að vinna í höndunum er ekkert mál. Ég hætti námi, fór að vinna í Skipalyftunni í Eyjum 2012 og festist í járnsmíðinni þar.

Síðar réði ég mig til Hafnareyrar sem ég hélt að væri frekar lítið fyrirtæki en reyndist vera stórt og með heilmikla starfsemi á mörgum sviðum. Hér er gott að vera en ég neita því ekki að nú verður mér hugsað til þess að fá líka vélstjórnarréttindi.

Í augnablikinu erum við félagarnir að græja vélar í uppsjávarvinnslu Vinnslustöðvarinnar fyrir makrílvertíðina, vélar sem hausa makríl og flaka síld. Það þarf að skipta um legur og keðjur og dytta að hinu og þessu. Menn eru bjartsýnir og vonast eftir góðri makrílvertíð. Veitir ekki af eftir að við misstum af loðnuvertíð annað árið í röð.“

Nýjustu fréttir

„Fínasti vertíðarfiskur”
Kallað eftir hugmyndum fyrir Goslokahátíð 2026
Ein ferð í Landeyjahöfn
Heilsurækt við Íþróttamiðstöðina boðin út á ný eftir kærumál
Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.