Herjólfur III liggur enn bundinn við bryggju í Vestmannaeyjum. Herjólfur átti að sigla til Landeyjahafnar klukkan 9:30 í morgun, en eins og áður hefur verið greint frá siglir Herjólfur III í dag í stað þess nýja vegna verkfalls áhafnarmeðlima Herjólfs sem eru í Sjómannafélagi Íslands. Samkvæmt afgreiðslu Herjólfs er stefnt á að fara úr höfn klukkan 12:00. Farþegar sem komnir voru um borð fóru frá borði um 11:00 en bílar og vöruvagnar eru enn inni í skipinu.
Afleysingafólk, sumarstarfsmenn og aðrir starfsmenn Herjólfs sem eru ekki í Sjómannafélagi Íslands manna áhöfnina í dag. Formaður Sjómannafélags Íslands og formaður samninganefndar félagsins telja ákvörðun Herjólfs um að sigla þrátt fyrir verkfall vera verkfallsbrot. Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdarstjóri Herjólfs OHF segir það af og frá.
Áhafnarmeðlimir í Sjómannafélagi Íslands fjölmenntu á bryggjuna í morgun en höfðu sig ekki í frami að öðru leiti. Þungt hljóð var í hópnum og óánægja með ákvörðun Herjólfs að sigla.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst