Gera má ráð fyrir snörpum vindhviðum við fjöll, upp undir 35 metra á sekúndu, til dæmis undir Eyjafjöllum og Mýrdalsjökli. Því er ástæða til að fara með gát á þeim slóðum, sérstaklega á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Veðurspáin er svohljóðandi fyrir daginn:
Austan og norðaustan 10-18 metrar á sekúndu, en 18-23 syðst. Víða léttskýjað á Suður- og Vesturlandi í dag, annars slydda eða rigning með köflum, einkum austanlands. Hiti 1 til 8 stig, mildast við suðurströndina.
Austan 15-23 og rigning með köflum á morgun, talsverð um tíma á suðausturlandi og Austfjörðum. Snýst í suðaustan 8-15 seinnipartinn, fyrst sunnanlands. Heldur hlýnandi.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á fimmtudag:
Austan 15-23 metrar á sekúndu og rigning með köflum, en talsverð rigning á suðaustur og Austurlandi. Snýst í talsvert hægari suðaustanátt seinnipartinn, fyrst sunnanlands. Hiti 4 til 10 stig.
Á föstudag:
Sunnan og suðaustan 8-13 og rigning með köflum, en styttir upp síðdegis á Norður og Norðausturlandi. Hiti 2 til 8 stig.
Á laugardag:
Suðlæg átt og dálítil væta sunnan og vestantil í fyrstu, en vaxandi norðaustanátt með rigningu eða slyddu seinni partinn. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag:
Breytileg átt, rigning með köflum og milt veður.