Vel hefur gengið á Þórunni Sveinsdóttur VE eftir að skipið kom úr lengingu frá Danmörku fyrir rúmu ári. Nýlega landaði skipið 200 tonnum eftir tæpa fimm daga á veiðum og segir Gylfi Sigurjónsson skipstjóri að góður gangur hafi verið í veiðunum.
Skipið var lengt um 6,6 metra sem skilaði meðal annars plássi fyrir 200 viðbótarkör í lest. Þá var sett í það forkæling upp á dekki þannig að nú fer allur fiskur við núll gráður ofan í lest. Það er því kjör hráefni sem Þórunn Sveinsdóttir kemur með að landi.
„Þetta var bara mokfiskerí en við vorum svo sem heppnir líka og náðum þarna í um 90 tonn af ufsa þannig að við kvörtum ekki. Við byrjuðum á Breiðamerkurdýpi og fórum svo út á Pung og á Verkamannabanka. Við fórum því víða og það var töluvert um keyrslu. Við þurfum að gera þetta svona á þessum árstíma og þetta er alltaf sólarhringskeyrsla hvora leið á miðin,” segir Gylfi.
Tveggja handa ufsi
Hann segir óvenjumikinn ufsa hafa fengist og þetta hafi allt verið stór ufsi; tveggja handa ufsi eins og hann kallast. Annars var aflinn blanda af þorski, ýsu og karfa, allt saman mjög vænn fiskur. Gylfi kveðst ekki muna eftir jafngóðri veiði áður á þessum árstíma og það óvenjulega hafi líka verið hve blandaður aflinn var.
„Við seljum stærsta fiskinn út og erum að fá alveg dúndurverð fyrir hann. Þeir biðja um einn gám á viku og vilja ekki meira og við erum að fá miklu hærra verð en á mörkuðunum hérna heima. Þetta eru bein viðskipti með óunninn fisk við framleiðanda Fish&Chips á Bretlandi og þeir vilja bara fisk frá okkur. Við þurfum að eiga fyrir þá alltaf nálægt 18 tonnum af stórum fiski í hverri viku. Allur smærri þorskurinn, ufsinn og annað fer til vinnslu hérna. Milli 60-70% af því sem við fengum síðast fór til vinnslu hjá Leo Seafood hérna í Eyjum,“ segir Gylfi.
Eitt síðasta fjölskyldufyrirtækið
Smit kom upp í Þórunni Sveinsdóttur seint í september og segir Gylfi það í raun kraftaverk hve vel leystist úr því. Einn úr áhöfninni var smitaður en einkennalaus um borð í tvær vikur og smitaði einungis einn annan úr áhöfninni. Vegna þessa var skipið svo í framhaldinu frá veiðum í eina viku meðan áhöfnin var í sóttkví.
Gylfi á ekki langt að sækja fengsældina því faðir hans, Sigurjón Óskarsson, er einn mesti aflaskipstjóri sem Eyjarnar hafa alið. Bróðir hans Viðar var ekki síður fengsæll en hann er nú kominn í land og stýrir útgerðinni ásamt föður þeirra og systur sem stýrir bókhaldinu. Útgerðin er ein fárra fjölskylduútgerða sem eftir eru í Eyjum og þeim fækkaði enn um eina í síðasta mánuði þegar Bergur-Huginn, dótturfélag Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, keypti Berg ehf. sem gerði út samnefndan togara.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.