Þeir voru frábærir tónleikarnir sem Eyjamaðurinn Bjartmar Guðlaugsson hélt í Háskólabíói með Bergrisunum 18. júní. Tilefnið var 70 ára afmæli Bjartmar og einnig fagnaði hann 44 ára höfundarferli sem hefur skilað mörgu sem er með því besta sem við eigum lögum og textum. Nú gefst Eyjamönnum tækifæri á að heyra og sjá kappann í Höllinni á föstudaginn kl. 20.00.
„Í Höllinni tökum við sama prógram og í Háskólabíói ásamt tveimur lögum, Leiðinni heim, sem er Goslokalagið 2013 og Nú meikar þú það Gústi til minningar um Gústa frænda minn,“ sagði Bjartmar sem lofar miklu stuði í Höllinni.
Hann var líka ánægður með tónleikana í Háskólabíói þar sem honum var sýndur sómi við hæfi. „Mér veittist sá heiður að fá heiðursmerki Stefs sem Þórunn Gréta Sigurðardóttir varaformaður STefs afhenti mér og Hallur Ingólfsson afhenti mér heiðursmerki Félags tónskálda og textahöfunda. Einnig veittist mér sá heiður að forseti Íslands Guðni Th. kom á tónleikana.
Gífurleg stemning var í tónleikagestum og ég veit að hún verður ekki síðri á föstudagskvöldið.“
Hljómsveitina Bergrisar skipa Júlíus Freyr Guðmundsson á bassa, Birkir Rafn Gíslason gítar, Arnar Gíslason trommur og Daði Birgisson hljómborð. María Helena Haraldsdóttir kona Bjartmars steig á svið og söng með þeim.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst