Á fundi Almannavarnanefndar Vestmannaeyja í gær er lýst yfir áhyggjum af þeirri staðreynd að einungis ein nothæf neysluvatnslögn er milli lands og Vestmannaeyja. „Núverandi lögn, neðansjávarleiðsla 3, var tekin í notkun árið 2008. Neðansjávarleiðslur 1 og 2 hafa báðar verið dæmdar ónýtar, sú fyrri árið 2008 og sú síðari árið 2014. Frá 2014 hefur neðansjávarleiðsla 3 því verið eina neysluvatnslögnin milli lands og Eyja. Ljóst er að ef bilun verður á lögninni í sjó skapast alvarlegt ástand í Vestmannaeyjum og fyrir liggur að viðgerðir í sjó er einungis hægt að framkvæma yfir sumartímann,“ segir í ályktun.
Skömmtun á vatni
Bent er á að lítið gat á leiðsluna veldur því að þrýstingur fer af henni og rennsli stöðvast. „Kæmi til bilunar á leiðslunni liggur fyrir að þegar yrði lýst yfir almannavarnaástandi og grípa þyrfti til skömmtunar á vatni. Drykkjarvatn yrði skammtað úr 5000 m3 vatnsgeymi í Löngulág sem myndi tæmast fljótt.
Loka þyrfti dreyfikerfi strax og leggja áherslu á áfyllingarvatn hitaveitu til að halda henni inni sem lengst. Fiskvinnsla og annað atvinnulíf myndi stöðvast mjög fljótlega og hitaveitan einnig. Líklegt er að flytja yrði sjúklinga af sjúkrahúsinu og aldraða af hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum upp á land strax. Þá yrði að grípa til lokunar á skólum og leikskólum auk sundlaugar og íþróttahúss. Unnt væri að flytja drykkjarvatn á plastflöskum ofan af landi í einhverju mæli en ljóst að ekkert neysluvatn væri á húsum og hýbýlum í bænum.“
Mikið öryggismál
Almannavarnanefnd áréttar og tekur undir með Vestmannaeyjabæ, að hér er um mikið öryggismál fyrir íbúa Vestmannaeyja að ræða. Bæjarráð Vestmannaeyja hefur sett af stað starfshóp til að vinna að frangangi málsins.
„Brýnt er að tafarlaust verði hafinn undirbúningur að kaupum og lagningu á nýrri neðansjávarleiðslu milli lands og Eyja til að tryggja afhendingaröryggi á neysluvatni í Vestmannaeyjum. Mikilvægt er að yfirvöld sýni stöðunni skilning,“ eru lokaorð Almannavarnarnefndar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst