Á vertíð í Eyjum 1960 og verið hér síðan
15. júní, 2024

Siglfirðingurinn Rabbi og Eyjakonan Inga saman í lífsins ólgusjó. Hann stundaði sjóinn og hún sinnti sjúklingum. Ómar Garðarsson ræddi við þau hjón í aðdraganda sjómannadagsins.

„Ég er fæddur og uppalinn á Dalabæ vestan Siglufjarðar og er þar til sjö ára aldurs að við flytjum til Siglufjarðar. Er þar til fjórtán ára aldurs. Kláraði skyldunámið og fór til sjós fjórtán ára. Fyrsta sumarið á síld á Jóni Stefánssyni frá Eyjum sem Björgvin mágur átti. Næst voru það reknet í Húnaflóanum og endaði í Keflavík haustið 1958. Vertíðina 1959, þegar ég var 16 ára var ég í Sandgerði og á síld um sumarið sem annar vélstjóri á Dúxinum RE 300,“ segir Þórður Rafn Sigurðsson (Rabbi), útgerðarmaður og skipstjóri þegar hann og kona hans, Ingigerður Eymundsdóttir (Inga) líta yfir farinn veg með blaðamanni.  

 Næst var Rabbi á Braga SI með Páli Pálssyni 1959. „Við vorum á trolli um haustið en Bragi var gerður út frá Ólafsfirði. Um áramótin 1960 fór ég til Eyja, ætlaði að skreppa eina vertíð með Steingrími bróður en búinn að vera hér síðan,“ segir Rabbi.

Byrjaði sem platnemi 

„Ég er Vestmannaeyingur, fædd hér á Sjúkrahúsinu. Mamma fædd á Seyðisfirði og pabbi undan Fjöllunum. Við vorum tvær systurnar, Sigrún sem er tveimur árum eldri og fór ung til Reykjavíkur,“ segir Inga sem kláraði Gagnfræðaskólann. Vann eitt sumar í Ísfélaginu og um haustið á Sjúkrahúsinu og þar með voru örlögin ráðin. „Það var kallað að vera platnemi og var ég mest í umönnun. Þetta var á Gamla spítalanum, Ráðhúsinu og var mjög gaman að vinna þar. Læknar voru Einar Guttormsson, Örn Bjarnason og kandídatar. Hjúkrunarkonur voru Selma og Unnur Gígja,“ segir Inga sem fór í hjúkrunarnám 1960 og var fyrirkomulagið ólíkt því sem nú er. 

„Við byrjuðum á þriggja mánaða kennslu í Hjúkrunarkvennaskólanum. Þá tók við vinna í eitt ár og svona gekk þetta þrisvar sinnum og eftir þriggja ára og þriggja mánaða nám og vinnu vorum við útskrifaðar sem hjúkrunarfræðingar.“ 

Inga klárar Hjúkrunarskólann haustið 1963 og Rabbi lýkur námi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík vorið 1964. Leigðu þau íbúð með Steingrími bróður Rabba og Guðlaugu konu hans um veturinn. „Hjúkrunarnemarnir voru sendir út um allt og ég vildi fara heim til Eyja að vinna. Þá var sagt að við værum óþroskaðar og þyrftum að kynnast öðru vísi aðstæðum. Var ég send á Ísafjörð. Flaug vestur með Catalínabát, sjóflugvél og hlakkaði ég til að lenda á Pollinum. En það var lent á vellinum sem var mikið skúffelsi. Ég hef aldrei séð eins mikinn snjó og þennan vetur en leið vel. Þarna var ég frá því í janúar fram í júní.“

Hjúkrunarkona og skipstjóri 

Að námi loknu, fannst þér þú vera tilbúin í það erfiða og krefjandi verk sem hjúkrun var og er? 

„Já,“ svarar Inga ákveðin. „Í náminu var maður sendur inn á ólíkar deildir og kláraði sinn tíma þannig. Þá fékk maður einkunn hjá yfirhjúkrunarkonunni. Ein sagði við mig, – Inga, ég get ekki útskrifað þig og ég hugsaði, hvað hef ég nú gert? Þá brosti hún og sagði. – Þú ert eini neminn sem fer frá mér og kann ekki að drekka kaffi. Létti mér alveg rosalega,“ segir Inga og Rabbi skýtur inn í. „Hún byrjaði ekki að drekka kaffi fyrr en hún varð 32 ára og er verri en ég í dag.“ 

 Fyrra árinu í Stýrimannaskólanum lauk í febrúar. „Þá réði ég mig sem stýrimann á Jóni Stefánssuni með Sigga Ella. Hafði áður verið vélstjóri hjá honum. Tók Vélskólann áður en ég fór í Stýrimannaskólann. Vorið 1963 kemur Einar ríki til mín og spyr hvort ég vilji ekki taka bátinn í sumar, Siggi ætli í frí. Ég sagði það ekki ganga, ég væri aðeins búinn að vera eina vertíð sem stýrimaður,“ segir Rabbi sem á endanum tók við Jóni Stefánssyni og þar með hófst 60 ára gifturíkur skipstjóraferill Rabba. 

 Ekki var Rabbi kominn með réttindi en Einar sagði það ekkert vandamál, hann fengi undanþágu sem fékkst. „Þar með voru örlög mín ráðin, byrjaði 15. maí 1963 þannig að á síðasta ári voru 60 ár frá því ég byrjaði sem skipstjóri. Sumarvertíðin gekk vel, vorum á humartrolli og fiskitrolli þangað til ég fór í skólann um haustið.“

Þrír ættliðir í hjúkrun

Að loknu námi vann Inga í Reykjavík en um leið og Rabbi útskrifaðist vorið 1964 lá leiðin til Vestmannaeyja. „Ég þurfti ekki að vinna af mér eins og sumar starfssystur mínar. Ég fór að vinna á kvennadeild á Landspítalanum og líkaði vel,“ segir Inga sem þá var 22 ára. „Þegar ég útskrifaðist skrapp ég heim í nokkra daga. Einn morguninn vekur mamma mig og segir að það sé hvalatorfa vestan við Eyjar. Hvort ég vilji ekki koma og sjá? Við, eins og margir löbbuðum upp að Hásteini og sáum að þetta voru ekki hvalir. Þarna var Surtseyjargosið byrjað,“ segir Inga en um það segir á Wikipedia:  

„Menn urðu gossins varir klukkan 7:15 að morgni þess 14. nóvember 1963, þegar það braust upp úr yfirborði sjávar skammt frá fiskibátnum Ísleifi II frá Vestmannaeyjum. Skipverjar mældu sjávarhita í hálfrar mílu (rúmlega 900 m) fjarlægð og reyndist hitastigið vera nálægt 10 °C.“ 

Var ykkur hent beint út í djúpu laugina þegar þið byrjuðu að vinna að loknu námi? „Í náminu var víða komið við en svo tók alvaran við. Við fengum ekki eins viðamikla kennslu og í dag. Því hef ég kynnst í gegnum dóttur mína og dótturdóttur sem voru fjögur ár í háskóla og ættliðirnir í hjúkrun orðnir þrír, ég, Íris og Elva Dögg.“

Myndarlegur hópur. Á myndinni eru Rabbi og Inga með hópinn. Alls eru þau 49 á myndinni en sá 50. leyndist í maga móður sinnar.  Mynd: Ívar Sæland.

Líkaði vel við Einar ríka

Vorið 1964 tekur Rabbi aftur við Jóni Stefánssyni sem þá var í eigu Björgvins mágs hans. „Ég er með hann í tvö ár. Fer aftur til Einars ríka í Hraðfrystistöðinni og er hjá honum í þrjú ár. Er með Helliseyna og Hannes lóðs. Það var gott að vinna fyrir Einar og við vorum miklir vinir þó aldursmunurinn væri mikill. Fyrsta sumarið, 1963 kynntist ég syni Einars, Sigurði sem var útgerðarstjóri með Finni í Eyjabúð og Jóa Páls. Mig minnir að Sigurður hafi verið 15 ára og við urðum miklir vinir alla tíð. Það gustaði af Einari en hann var skemmtilegur maður og sanngjarn.“ 

 Sigurður, sem seinna varð forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja átti eftir að eflast og verða einn af þeim stóru í íslenskum sjávarútvegi eins og pabbinn. Sástu hvað í honum bjó þegar þið kynnist? 

„Ég var ekki mikið eldri en hann var mjög góður. Ég átti að fá nýtt troll en það gekk ekki, Jói Páls var svo sparsamur á veiðarfæri. Ég hringi í kallinn og hundskammaði hann fyrir nískuna. Mig vantaði nýtt troll, þetta væri bara drasl sem ég var með. Sigurður heyrði þetta og reddaði því að við fengum nýtt troll þegar við komum næst í land. Sá nauðsynina í að vera með góð veiðarfæri.“ 

Ársæll var merkilegur karl 

Rabbi flutti sig til Sælanna, Ársæls Sveinssonar og sona 1968 og byrjaði með Ísleif III. Er hjá þeim til vors 1974. „Seinna var ég stýrimaður á Ísleifi IV, sem var um 200 tonna stálbátur og kom nýr á árunum í kringum 1965. Mikill munur frá litlu trébátunum sem gátu verið erfiðir, ekki síst á síldinni. Rétt kojur fyrir karlana á bátum sem ég var á, en á bátum með tvo nótabáta voru 16 til 18 kallar og tveir um hverja koju. Ekki mikið upp úr á þessum litlu bátum þegar búið var fylla lest og dekk af síld,“ segir Rabbi sem líkaði vel að vinna hjá Sælunum. 

 „Það var mjög gott. Leifur var útgerðarstjóri og Lárus skrifstofustjóri. Sá gamli, var orðinn mjög fullorðinn en fylgdist með. Skemmtilegur kall og drífandi. Aðra vertíðina mína vorum við á trolli í janúar og fram í febrúar. Ég leit við á netaverkstæðinu til að athuga hvort byrjað væri að fella netin. Það var ekki. Ég þurfti að hitta Lárus á skrifstofunni og þá kemur sá gamli fram og spyr hvort ég hafi kíkt við á netaverkstæðinu? Ég játti því og þá spyr hann hvort ekki sé byrjað að fella?

,,Nei” sagði ég.- Hvað er þetta, er ekki byrjað að fella hjá Ársæli Sveinssyni, rumdi í þeim gamla. Hann bað mig um að koma með sér og við löbbuðum út á netaverkstæði. Hann byrjaði á að skamma kallana, Eyfa á Bessastöðum, Tomma Sveins og Björgvin Jónsson í Úthlíð. – Er ekki farið að fella hér og vertíðin að byrja? Ekki vantaði netin og hann sagði köllunum að hætta þessu gutli og byrja að fella. – Það er skipun!“ Við héldum til baka á skrifstofuna og þar fengu synirnir að heyra það.

Í eigin útgerð

Um áramótin 1975 prófaði Rabbi að fara í land og réði sig sem verkstjóra í móttökuna og saltfiskinn í Fiskiðjunni. Sá fljótt að það átti ekki við hann. „Þá var Fiskiðjan að selja báta til skipstjóra og vélstjóra. Gísli heitinn Þorsteins sem var einn af eigendunum og mikill vinur minn kom til mín og spyr hvernig mér líki þetta. Ég sagði honum að mér líkaði ekki vinnan í frystihúsinu og ætlaði til sjós aftur. – Ég er með bát handa þér segir hann. Það er aldrei að vita segi ég en þá kemur Halli Gísla sem var aðalmaðurinn í Gúanóinu og Fiskiðjunni. – Gísli segir að þú ætlir að kaupa Marsinn, segir Halli. Ha? segi ég. Það var ekkert ákveðið, hann bara spurði, segi ég. – Ef þú vilt bát þá bara reddum við því. Ég talaði við Ingu en henni leist ekkert á þetta. Við urðum þó sammála um að slá til. Það var svo 15. maí 1975 að kaupi ég Marsinn og nefndi hann Dala Rafn VE 508, sá fyrsti af fimm. Margir héldu að nafnið væri vegna þess að ég var frá Dalabæ en svo er ekki. „Bátarnir okkar eru nefndir eftir draug úr þjóðsögunum,“ segir Rabbi og hlær. „Við vorum á trolli um sumarið. Á línu um haustið og svo á netum á vertíðinni. Gekk það mjög vel.“

Þar með var framtíðin ráðin og árið 1980 kaupir hann  Ölduljón. „Ég var rétt byrjaður að róa á Dala Rafni en um mánaðamótin febrúar mars kaupi ég Ölduljón og í tvö ár gerði ég út Dala Rafn og Ölduljón. Gísli Garðars, sem var stýrimaður hjá mér á Dala Rafni tók við honum og ég fór yfir á Ölduljónið.“

Bátakaup með handabandi 

Á þessum árum tók ekki langan tíma að kaupa bát og eru kaupin á Ölduljóni gott dæmi um það. 

„Fiskiðjan bað mig um að taka við honum og gera hann út. Þeir ætluðu að taka hann á leigu. Ég fer um borð í Ölduljónið þegar við komum í land seinnipart dags. Þá var Siggi Þórðar, sem átti Ölduljónið að lakka gluggana í brúnni. Ég spurði hvort ég mætti kíkja á bátinn og hann sagði – já. 

Vélstjórinn var með mér og við fórum um bátinn. Kem upp í brú og spyr Sigga hvort hann ætli að selja bátinn? – Já, sagði hann. Viltu selja mér hann? spyr ég, – alveg eins, segir hann. Hvað viltu fá fyrir hann? – Tryggingaverðmæti skipsins, segir hann. Ég vissi hvað það var. Horfði á hann og rétti fram höndina og sagði samþykkt. Þar með voru kaupin ákveðin. Hann rétti mér lyklana og ég var byrjaður að róa á Ölduljóninu viku seinna.“ 

 Hann segir þetta ólíkt í dag. „Þegar ég seldi síðasta Dala Rafn til Ísfélagsins tók það einn og hálfan mánuð. Tók svo um eitt ár að fá öll leyfi, frá Samkeppnisstofnun og öllu því kjaftæði,“ segir Rabbi en í allt átti hann fimm báta. Árið 1993 kaupir hann Sindra, togara sem Samtog átti af Vestmannaeyjabæ. Þetta var leið sem farin var til að tryggja skip og kvóta í Vestmannaeyjum. Frumkvæðið hafði Guðjón Hjörleifsson, þáverandi bæjarstjóri.

Landsbankinn á kvótabremsunni

„Ég keypti Sindra og Óskar Þórarinsson á Frá keypti Frigg af bænum. Nefndi hann Frá en var áður Helga Jó. Bærinn nýtti forkaupsréttinn og við keyptum,“ sagði Rabbi sem seldi Dala Rafn/Ölduljón til Hríseyjar, Dala Rafn/Sindra til Færeyja 2003 og kaupir Háey, áður Emma VE af Magga Kristins og nefnir Dala-Rafn. Gerir hann út til 2006 er þá að láta smíða nýjan Dala-Rafn í Póllandi sem hann fékk afhentan haustið 2007. „Hann kom svo heim 21. desember 2007 og hann átti ég til 2014 þegar Ísfélagið keypti útgerðina.“

„Ég hafði reynt að kaupa og bjóða í kvóta en fékk ekki því bankarnir létu einstaklinga ekki hafa kvóta. Ég bauð í bát í Grindavík sem Landsbankinn yfirtók. Bauð í hann 250 milljónir króna, alveg 50 milljónum yfir réttu verði en fékk ekki einu sinni svar frá bankanum. Frétti svo tveimur eða þremur mánuðum seinna að báturinn hafði verið seldur til Sandgerðis. Ég og sá sem missti bátinn fórum að garfa í þessu. Kom í ljós að bankinn gaf hann til Sandgerðis fyrir 75 milljónir. Sá sem fékk hann var farinn á hausinn innan árs. Síðasta kvótann keypti ég með Magga Kristins þegar við keyptum Portlandið af Binna, Benóný Benónýssyni.

Ókeypis bjór út á Svenna Tomm

Óhjákvæmilega hefur Rabbi, eftir tæp 60 ár á sjó lent í mörgu misjöfnu og stundum gat hann blásið í Norðursjónum þar sem Rabbi var á Ísleifi IV. Á árunum í kringum 1970, eftir að síldin hvarf af Íslandsmiðum sótti íslenski síldarflotinn í Norðursjóinn og landaði í Þýskalandi, Danmörku og víðar. „Hann gat verið brælinn í Norðursjónum. Annað haustið lágum við í þrjár vikur í Leirvík á Hjaltlandi í vitlausu veðri. Þaðan var farið út og beint í var á Orkneyjum þar sem við lágum fyrir akkeri í einhverja daga. Fórum í land á léttbátnum en þarna var herstöð og skemmtileg sveitaverslun. Mér er minnisstætt að búðarborðið var í boga. Öðrum megin var 

slátrarinn, í miðjunni brauð og pakkavörur á hinum endanum. Aftan við mitt borðið var stór arinn sem kynnti upp þetta stóra hús sem var allt kolsvart. Aftan við slátrarann var allt vaðandi í kolsýringi en enginn hafði áhyggjur af því.“ 

Annars lét Rabbi vel af kynnum sínum við fólkið í Leirvík. Það tók íslensku sjómönnunum vel og þegar mest var skiptu þeir hundruðum. „Svenni Tomm var á Ísleifi og í löngu landlegunni fórum við reglulega í göngutúra út fyrir bæinn. Þar rákumst við á írskan pöbb í moldarkofa. Hljómsveit spilaði og við settumst niður og fengum okkur bjór. Svenni var góður söngmaður og ég æsti hann upp í að syngja. Hann tók tvö lög og eftir það drukkum við alltaf frítt á barnum. Þetta voru skemmtilegir göngutúrar hjá okkur Svenna.“ 

Kýldi bátinn í kaf

Rabbi segist hafa lent í ýmsu en kannski ekki verið í hættu. „Við fengum af og til á okkur brotsjói án þess að lenda í miklum vandræðum. Man þó eftir einu. Við vorum á útilegu á línu á Ölduljóninu á 

Kjölsensbanka norður úr Melrakkasléttu. Það var leiðinda bræla og spáði vitlausu veðri. Við beittum um borð og til að hvíla karlana ákvað ég að fara inn á Raufarhöfn. Þegar við vorum að nálgast land kom straumbrot aftan á bátinn og gjörsamlega kýldi hann í kaf. Tveir línubalar fram við hvalbak klesstust saman. Krafturinn í sjónum var það mikill að þeir voru svona,“ segir Rabbi og sýnir stærðina með hálfum faðmi. „Já, með línunni í.“ 

Meðan Rabbi sótti sjóinn var Inga í landi og hugsaði um börnin þrjú og bú og starfaði sem hjúkrunarfræðingur. Ekki vill hún gera mikið úr sínu hlutverki en Rabbi er á öðru máli. „Í þau 35 ár sem ég var alveg á sjó sá Inga um allt í landi. Meðal annars að greiða tryggingu vikulega, fyrst allt handskrifað áður en tölvurnar komu til sögunnar.“ 

„Þegar Rabbi kom af sjónum var hann settur á stall hjá börnunum og var þar. Það var hátíð og mömmu ýtt til hliðar,“ segir Inga og hlær. „Mamman alltaf nöldrandi en þau fengu frí frá henni þegar pabbi kom heim.“ 

 Ekki vill Inga viðurkenna að hún hafi verið hrædd um Rabba á sjónum. „Hann var mjög duglegur að tala í land. Fyrst hlustuðu allir og þá sagði maður sem minnst sem gjörbreyttist með farsímanum,“ segir Inga.

Erfiðasta augnablik lífsins 

Þau nefna næst gosið 1973. Sem var þeim og öllum Eyjamönnum erfitt. „Við fórum öll með Ísleifi IV þar sem ég var stýrimaður. Við hentum fólkinu í land og ég skildi við Ingu á bryggjunni með tvö börn og hún kasólétt. Það er með því erfiðasta sem ég hef lent í á ævinni,“ segir Rabbi en þau bjuggu í Ölfusborgum. „Þar vorum við heppin þó þyrfti að troða bómul með svalahurðinni og bara hiti á klósettinu. Ég var með kommóðu, vöggu og reiðhjól krakkanna. Sá ekki dótið mitt fyrr en við komum heim,“ segir Inga og hugurinn leitaði heim til Eyja. 

„Þegar gosið hófst var ég ófrísk af Ægi sem fæddist í júní í Reykjavík. Þegar ég vissi að Unnur Gígja og Örn Bjarna voru komin á Spítalann heima og skólastarf hafið, fór hugurinn að leita heim. Ekki síst vegna þess að ég varð að keyra til Reykjavíkur í ungbarnaeftirlit. Vitandi af þeim í Eyjum þótti mér miklu öruggara að vera þar og við fluttum til Eyja í byrjun september,“ segir Inga.

Þau bjuggu á Fjólugötu 27, hús sem slapp í gosinu en Rabbi þurfti gröfu til að moka ofan af olíutanknum til að fá hita í húsið. „Þetta var okkar hús og fluttum við tvisvar inn, fyrir og eftir gos. 

Við vorum svo eins og sveitafólkið og fylgdumst með þeim sem fluttu inn. Gaman að sjá alltaf ljós í fleiri og fleiri húsum,“ segir Inga en dag búa þau á Birkihlíð 6 og una hag sínum vel. 

Eftirminnilegt afmæli 

Í gosinu kom það í hlut Rabba að sjá um flutning fyrir Sælana sem voru með umfangsmikinn rekstur, útgerð, fiskverkun og verslun. „Ég var hérna í eina tíu daga á meðan verið var að tæma búðina og koma öðru dóti upp á land. Var með báða vörubílana þeirra og það var keyrt allan sólarhringinn. Ég bjó upp á Bröttugötu níu hjá Jóa Kristins. Þar var haldið eitt skemmtilegasta 40 ára afmæli sem ég hef lent í. Reynir heitinn á Tanganum var fertugur og þegar ég kem er búið að raða í hring mat og allskonar dóti á stofugólfið því lítið var um húsgögn. Líka nokkrum flöskum með 75% vodka og við tíu eða tólf sem sátum í hring. Opnuðum niðursuðudósir með kjöti og fleira góðgæti og borðuðum beint upp úr þeim. Eftirminnilegt og skemmtilegt afmæli.“ 

Rabbi og Reynir sváfu á beddum í austurherberginu á Bröttugötunni sem snýr að Eldfellinu. „Eina nóttina buldi vikurinn svo á glugganum að mér datt ekki annað í hug annað en að rúðan færi inn. 

Ég er rétt að sofna þegar hryðjan byrjar. Horugur sagði eitt einasta orð. Stóðum upp um leið, tókum beddana og fórum inn í stofu. Lögðumst þar niður og héldum áfram að sofa.“ 

 Þegar Rabbi fór að minnka við sig á sjónum tók Eyþór sonur þeirra við skipstjórninni. ,,Það var mjög blendin tilfinning að horfa á eftir Dala-Rafni sigla út þegar Eyþór sonur okkar fór með hann í fyrsta sinn,” segir Inga en útgerðarsögu fjölskyldunnar lauk árið 2014 og þá tóku við önnur verkefni. 

„Rabbi og Eyþór hættu að veiða fisk og veiða nú ferðamenn. Fjölskyldufyrirtækið okkar, Rib Safari býður upp á siglingar með ferðamenn í kringum Vestmannaeyjar. Það gengur vel og fólk er orðlaust yfir fegurð Eyjanna,“ segir Inga en það er ekki það eina. „Gæluverkefnið mitt er Sjóminjasafnið sem er afrakstur söfnunar á munum sem tengjast sjónum,“ segir Rabbi og er engu logið þegar fullyrt er að það er sennilega glæsilegasta safn landsins í einkaeigu.“ 

Og þau líta sátt yfir farinn veg. „Í allt erum við 50, börnin þrjú, Íris, Eyþór og Ægir, barnabörn, barnabarnabörn og tengdabörn.  Flottur hópur og við erum saman,” segja þau að endingu. 

Fjölskyldan fagnar nýju skipi þegar Dala Rafn VE 508 kom til Eyja 2007. Inga og Rabbi með börnum og tengdabörnum, Katrín Jónsdóttir, Ægir, Inga og Rabbi, Íris, Valur Gíslason, Eyþór og Helga Björk Georgsdóttir.
Facebook
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
14. tbl. 2024
14. tbl. 2024

NÝBURAR

Drengur Hristov
2. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Todor Hristov og Marta Möller

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

Nýburi
30. júlí 2024
Stúlka
Heimahúsi á Dalvík
Alexandra Ósk Gunnarsdóttir og Brynjar Ingi Óðinsson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

Nýfædd stúlka.
4. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Theodóra Ágústsdóttir & Carlos Guani

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

IMG 3174
15. júlí 2024
Drengur
Balingen, Þýskalandi
Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

tryggvason
30. júní 2024
Drengur
Reykjavík
Tryggvi Stein Ágústsson og Guðný Erla Guðnadóttir

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

nyburar
4. júlí 2024
Drengur
Reykjavík
María Rós Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Heimir Kristinsson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

jon
20. júní 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Logi Snædal Jónsson og Svala Björk Hólmgeirsdóttir

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

Admin Ajax
10. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Unnur Birna Hallgrímsdóttir og Guðmundur Sundström

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

IMG 2282 940x940
29. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir og Felix Örn Friðriksson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

IMG 2234 800x800
28. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Helen Dögg Karlsdóttir og Gísli Ingi Gunnarsson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

Mest lesið
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst