ÍBV reið ekki feitum hesti frá tvennu gærdagsins þegar bæði karla- og kvennalið ÍBV í handbolta léku heimaleiki. Aðeins eitt stig sat eftir. Frítt var á leikina í boði Ísfélagsins.
Stelpurnar riðu á vaðið kl. 18 þegar þær fengu Valsstúlkur í heimsókn.
ÍBV eiginlega sá aldrei til sólar í leiknum gegn toppliði Vals sem tók öll völd á vellinum frá fyrstu mínútu. Sóknarleikur ÍBV gekk hvorki né rak í fyrri hálfleik og var staðan í hálfleik 7-15.
Síðari hálfleikurinn var svo engu skárri að hálfu Eyjakvenna og endaði leikurinn með 13 marka sigri Vals.
Markahæst í liði ÍBV var Ester Óskarsdóttir með 5 mörk úr 17 tilraunum. Aðrir markaskorarar voru Arna Sif Pálsdóttir – 4, Ásta Björt Júlíusdóttir – 3, Greta Kavaliauskaite – 2, Sandra Dís Sigurðardóttir – 1 og Sunna Jónsdóttir – 1. Guðný Jenný Ásmundsdóttir varði 5 skot og Andea Gunnlaugsdóttir 4 í marki ÍBV.
ÍR stal stigi á loka mínútunni
Að loknum kvennaleiknum fengu strákarnir ÍR í heimsókn í fyrsta leiknum að loknu jóla- og HM fríi. Sömuleiðis var þetta fyrsti leikur strákanna eftir fráfall Kolbeins Arons Arnarsonar og voru því miklar tilfinningar í leiknum í gærkvöldi.
ÍR-ingar spiluðu mun betur í fyrri hálfleik og leiddu með þremur mörkum þegar gengið var til leikhlés. Eyjamenn voru þó fljótir að vinna upp forrystuna í þeim síðari og tóku eftir það yfirhöndina. Eyjamenn höfðu sigurinn vísann þegar um mínúta var eftir en ÍR-ingum tókst hinsvegar að jafna þegar þrjár sekúndur voru eftir. Lokatölur því 24-24.
Mörk Eyjamanna skiptust á aðeins fimm leikmenn. Markahæstur var Hákon Daði Styrmisson sem átti mjög góðan leik og skoraði 8 mörk. Aðrir markaskorarar voru Kári Kristján Kristjánsson – 5, Dagur Arnarsson – 5, Grétar Þór Eyþórsson – 4 og Kristján Örn Kristjánsson – 2.
Teddi og Sigurbergur ekki meira með?
Eyjamenn léku án tveggja lykilleikmanna þeirra Theodórs Sigurbjörnssonar og Sigurbergs Sveinssonar en þeir voru frá vegna meiðsla.
Erlingur Richardsson þjálfari ÍBV segir, í samtali við mbl.is, líklegt að þeir leiki ekki meira með á þessari leiktíð. „Það er eiginlega mjög langt í þá báða, það er bara spurning hvort það verði eitthvað á þessu tímabili eða ekkert. Það þýðir ekkert að vera að velta því upp og við höfum ekkert verið að því. Við erum ekkert að ræða mikið um það, enda er það hlutverk okkar þjálfaranna að vinna úr því sem við höfum og virkja fleiri.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst