Í aðdraganda jóla er mikilvægt að staldra við og huga að því hvað í raun skiptir máli. Börnin okkar vaxa úr grasi og þroskast hratt og þar á meðal málþroskinn. Börn læra þó ekki orð af sjálfu sér, við þurfum að kenna þeim orðin og er það hlutverk okkar fullorðinna að ýta undir málþroska barnanna okkar með því að vera dugleg að tala við börnin og setja orð á allt sem við gerum. Þegar börn svo hafa lært orðin og nýta sér þau er það okkar hlutverk að víkka þann orðaforða og dýpka skilning á mismunandi orðum. Þetta er ekki síður mikilvægt með börnum sem eiga við einhvers konar málörðuleika að stríða.
Flest börn hafa löngun til að tjá sig, vilja samveru með foreldrum/forráðamönnum og una við bókalestur. Því er mikilvægt að skapa þessi tækifæri fyrir öll börn. Börn þurfa að hafa tækifæri til að tjá sig og fá hvatningu svo þau finni að það er þess virði að tjá sig og á þau sé hlustað.
Nýtum umhverfið í að auka málþroska barnanna. Hvort sem er í búðinni, í bílnum, heima, í baði, í göngutúr, í sundi, á ferðalagi og hvar sem við erum stödd. Almenn málörvun barna fer nefnilega ekki einungis fram í leikskólanum, skólanum eða í skipulögðum málörvunarstundum.
Málörvun á sér stað alls staðar!
Mikilvægt er að flétta þessa málörvun inn í allt daglegt líf og þá er gott að hafa eftirfarandi ráð í huga:
Tölum (og tölum og tölum ….. )
Tölum við barnið – málörvun á sér stað alls staðar og öflug málörvun er alltaf gulls ígildi. Verum dugleg að spjalla við börnin í öllu sem við gerum, hvort sem það er í leik eða daglegum athöfnum. Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir mjög miklu máli hversu mikið við tölum við börnin okkar og hversu innihaldsrík þau samskipti eru svo stöðugt bætist í orðaforða og hugtakaskilning þeirra. Munum samt að gefa börnunum svigrúm til að meðtaka það sem við erum að segja og gefum þeim tækifæri til að tjá sig. Sum börn þurfa tíma til að koma hugsunum sínum í orð og þá er mikilvægt að bíða og ekki drekkja börnunum í spurningum eða taka af þeim orðin.
Endurtekning
– Til að lengja tjáskipti barna er mikilvægt að bæta við það sem þau segja t.d.
Mikilvægt að endurtaka rétt svo barnið heyri réttan framburð en ekki segja „þú átt ekki að segja gip, þú átt að segja skip“.
Ekki þarf að endurtaka hvert einasta orð eða setningu sem barnið segir. Hér gildir að finna jafnvægi og ekki trufla eðlilegt flæði í samræðum.
Sjálfstal
– Mikilvægt er að setja orð á allt sem við gerum bæði innan heimilis og utan þess, t.d.
Með því að nota sjálfstal og setja orð á allt sem við gerum ásamt því að leggja inn einföld fyrirmæli fyrir barnið þá erum við að tengja orð við athafnir og barnið nær enn frekar að tileinka sér þau orð sem við erum að leggja inn. Barnið lærir að hlusta betur og vinna betur úr þeim upplýsingum sem við erum að gefa því. Oft er talað um að foreldrar/forráðamenn eigi að vera nokkurs konar íþróttafréttamenn – þ.e. að lýsa öllu sem foreldri/forráðamaður gerir, öllu sem gerist í kringum barnið og öllu sem fyrir augun ber.
Lýsingar
– Gott er að nota lýsingar með því að lýsa því sem mun gerast næst eða veita nánari upplýsingar um eitthvað sem er ekki endilega hér og nú, t.d.
Endurtekningar, sjálfstal og lýsingar ættu alltaf að vera hluti af daglegum samskiptum við barnið til að styðja við málþroska þess.
(Þrjár ofangreindar málsgreinar eru unnar upp úr Snemmtæk íhlutun í hnotskurn. Höfundar eru Ásthildur Bj. Snorradóttir og Bergrós Ólafsdóttir).
Orð dagsins eða Mynd dagsins
Þá eru orð skrifuð á blað og safnað í krukku eða myndir settar í krukku og á hverjum degi er dreginn miði eða mynd t.d. við kvöldmatarborðið og jafnvel hengt á ísskápinn. Þá er orðið rætt, t.d.
Oft geta skapast miklar og skemmtilegar umræður um eitt einfalt orð og um leið skapar það samveru og tækifæri til að tjá sig. Hægt er að aðlaga ,,orð dagsins” eða ,,mynd dagsins” að aldri barna á heimilinu og vera með flóknari orð eða orðasambönd þegar börnin eru orðin eldri.
Sköpum dýrmætar samverustundir í aðdraganda jóla
Í aðdraganda jóla er oft mikið um að vera og að mörgu að huga. Reynum samt að skapa stundir þar sem fjölskyldan gerir eitthvað saman og kostar ekki mikið t.d.
Þetta eru meðal annars einfaldar leiðir til að eiga samverustundir. Hver svona stund er svo dýrmæt og getur haft mikil áhrif á málþroska barna, þ.m.t. orðaforða, skilning og tjáningu. Einnig styrkir það tengsl því öll börn hafa þörf fyrir tengingu sem er stór partur af þroska þeirra.
Munum að við foreldrar/forráðamenn erum besta fyrirmynd barnsins þegar kemur að málþroska og við gegnum veigamestu hlutverki í lífi barnanna okkar. Við gegnum lykilhlutverki þegar kemur að örvun málþroskans. Börn auka orðaforða sinn, tjáningu og skilning í gegnum samskipti við aðra og því er mjög mikilvægt að þau fái mörg tækifæri til þess með samskiptum við foreldra/forráðamenn sína og fjölskyldu.
Gefum börnunum okkar þá allra bestu jólagjöf sem við getum gefið þeim – gefum þeim tíma okkar, samveru, nærveru og sköpum um leið góðar minningar. Nýtum jólafríið og þær stundir sem við eigum í fríinu til að tala saman, syngja saman, spila saman, leika saman, lesa saman og umfram allt bara vera saman. Hér er hugmynd að Jólabingó sem hægt er að sækja, sem skemmtilegt er að nota í jólafríinu og skapa um leið góðar stundir og dýrmætar minningar.
Gleðileg jól og njótið samverustundanna,
Tinna Tómasdóttir og Lovísa Jóhannsdóttir talmeinafræðingar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst