Bæjarráð kom saman síðastliðinn föstudag vegna stöðunnar sem upp er komin vegna afhendingar á rafmagni til Vestmannaeyja. Bæjarstjóri gerði grein fyrir stöðunni eftir að bilun kom upp og rafmagnslaust var í Eyjum í byrjun vikunnar. Bæjarstjóri hefur haldið bæjarráði upplýstu frá því að málið kom upp. Nú er ljóst að bilun varð á Vestmannaeyjastreng 3 (VM3) til Eyja u.þ.b. 1 kílómetra frá landi. Rafmagn til Vestmannaeyja er núna flutt um Vestmannaeyjastreng 1 (VM1) og varaaflsvélar HS-veitna og færanlegar varaflsvélar frá Landsneti sem eru staðsettar í Eyjum sjá um raforkuþörf þangan til að viðgerð verður lokið á Vestmannaeyjarstreng 3. Ekki er komin tímasetning frá Landsneti á því hvenær viðgerð geti hafist og hve lengi hún mun standa yfir.
Bæjarstjóri hefur verið í samskiptum við Landsnet, HS veitur, ráðherra og þingmenn um ástandið og viðbrögð. Einnig hefur almannavarnanefnd Vestmannaeyja, sem bæjarstjóri og framkvæmdastjóri umhverfis-og framkvæmdarsvis sitja í, fundað 4 sinnum síðan á þriðjudag og er í daglegum samskiptum við Landsnet.
Framkvæmdastjórn HS veitna mun koma til Vestmannaeyja á næstu dögum til að funda með bæjaryfirvöldum.
Bæjarráð leggur áherslu á í niðurstöðu sinni að nægt rafmagn verði tryggt í Vestmannaeyjum á meðan viðgerð á VM3 stendur yfir. Framundan er loðnuvertíð sem er mjög mikilvæg bæði fyrir Vestmannaeyjar og um leið þjóðarbúið allt. Nauðsynlegt er að nægilega margar varaaflsstöðvar verði í Vestmannaeyjum meðan þetta ástand varir. Bæjarráð leggur jafnframt áherslu á lagningu Vestmannaeyjastrengs 4 (VM4) verði flýtt og farið í þá framkvæmd eins fljótt og auðið er til þess að tryggja afhendingaröryggi rafmagns til Vestmannaeyja til framtíðar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst