KR-ingar höfðu betur í toppslag Pepsídeildarinnar 2:4 á Hásteinsvellinum í sannkölluðum toppslag. Eyjamenn voru algjörlega sofandi í upphafi leiks og fengu á sig tvö mörk á fyrstu fimm mínútum leiksins og KR-ingar voru mun betri það sem eftir lifði hálfleiksins. M.a. tókst þeim tvívegis að koma boltanum í netið en í bæði skiptin voru mörkin dæmd af og í annað skiptið var dómurinn vafasamur. Þá áttu þeir einnig bylmingsskot í stöng. En í síðari hálfleik voru það Eyjamenn sem voru í ökumannssætinu framan af. Þeir jöfnuðu metin 2:2 en fengu svo á sig tvö mörk og þar við sat.