Eftir að hafa starfað í sjö ár á sjó og tileinkað sér aga, úthald og vinnusemi, ákvað Aron Valtýsson, einnig þekktur sem Roni Pepp, að snúa aftur til síns upprunalega draums: að verða einkaþjálfari í fullu starfi. Ákvörðunin var ekki auðveld, en með bakgrunn í íþróttum, þekkingu á andlegri og líkamlegri heilsu og brennandi áhuga á að hjálpa öðrum, var tíminn réttur. Aron útskrifaðist sem ÍAK einkaþjálfari frá Keili árið 2018 og fljótlega eftir útskrift hóf hann störf sem þjálfari í Vestmannaeyjum, en sú vegferð varði ekki lengi en hann var að eigin sögn ekki tilbúinn þá, hvorki andlega né faglega. Hann segir sögu sína ekki alltaf hafa verið beina og greiða. Sem barn og unglingur var hann mjög efnilegur íþróttamaður, líf hans var hreyfing og keppni. En lífið hafði leiðir sem enginn sá fyrir – hann glímdi við meiðsli og andlega erfiðleika sem tóku sinn toll. Þessir erfiðleikar settu hann á krefjandi braut, en þeir kenndu honum líka dýrmætan lærdóm, sem hann nýtir í dag til að hjálpa öðrum.
Fljótlega eftir útskrift fór Aron aftur á sjó. Hann starfaði í kringum sjö ár á Vetmannaey VE, fyrst með skóla og síðar í fullu starfi. Vann og lærði þar af mörgum yndislegum mönnum, að eigin sögn. ,,Þar lærði ég hvað það þýðir að vinna fyrir hlutunum, standa í ströngu og byggja upp aga. En þrátt fyrir erfiða sjómennsku var hugurinn mikið annars staðar. Ég las bæði mikið af bókum, lærði og hlustaði á mikið af hlaðvörpum um andlega og líkamlega heilsu, mögulega stundum aðeins of heltekinn af því en mig grunaði nú að ég myndi einn daginn snúa aftur í heilsugeirann. Svo þegar tækifæri gafst tók ég oft æfingar um borð, og þegar ég var í landi, þá var ræktin mitt annað heimili.”
Í desember 2024 tók ég loksins af skarið. Ég hætti á sjó og lét svo í kjölfarið drauminn rætast – að verða þjálfari í fullu starfi. Að yfirgefa öruggar og góðar tekjur var bæði erfið og stressandi ákvörðun, en ég vissi að ég var kominn á þann stað í lífinu að ég gæti hjálpað fólki að veita þeim stuðning, leiðsögn og hjálpa þeim að verða besta útgáfan af þeim sjálfum.
Í dag býr Aron í Hveragerði, ásamt kærustu sinni og stjúpsyni, og býður upp á einkaþjálfun bæði þar og í Hreyfingu í Reykjavík, sem er að hans sögn ein fagmannlegasta líkamsræktarstöð landsins. ,,Þjálfun mín snýst ekki bara um að lyfta lóðum – hún snýst um að byggja upp sjálfstraust og aga hvort sem markmið þitt er að styrkjast, bæta þol, léttast eða einfaldlega líða betur í eigin skinni. Ég býð bæði upp á einkaþjálfun þar sem ég er á staðnum, þar fer ég með kúnnanum í gegnum æfinguna og svo fjarþjálfun í gegnum netið. í fjarþjálfun er einnig möguleiki á að hitta mig eða taka myndbands símtal mánaðarlega fyrir ítarlega stöðuuppfærslu. Einnig býð ég upp á fund ef einstaklingur vill og svo er auðvitað líka hægt að tala í skilaboðum. Fólk fær persónulega aðlagað æfinga- og næringarplan sem byggir á markmiðum þess og lífsstíl. Mikil áhersla er lögð á að kenna rétta tækni til að hámarka árangur og forðast meiðsli. Ég legg einnig mikla rækt við andlegu hliðina og veiti fólki leiðsögn í því að byggja upp aga, sjálfstraust og rétt hugarfar til að ná árangri til lengri tíma. Allir sem koma til mín fá persónulega eftirfylgni og stuðning.
Hver eru ráð Arons til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í ræktinni?
Farðu hægt af stað, ef þú ert týpa sem nennir bara alls ekki að mæta, prófaðu að byrja á 10 mínútum 4 sinnum í viku í tvær vikur. Þetta snýst mjög mikið um að koma sér upp vana að mæta, gerðu verkefnið nægilega smátt til þess að þú nennir að byrja á því, segðu við þig ,,ég ætla mæta í 10 mínútur´´ þegar þú ert mætt(ur) þá er líklegt að þú verðir allavega aðeins lengur, kannski 20 mínútur eða 40 mínútur. Stundum er bara nóg að byrja til að komast í gírinn, en ef þú hættir eftir 10 mínutur þá gerðiru samt miklu meira en að hanga heima í sófanum og það er bara vel gert. Ef þú endurtekur þetta reglulega, býrðu þér til góða rútínu sem gerir það auðveldara að mæta aftur og þá er þetta orðið partur af þínu lífi innan skamms. Ein af mínum uppáhalds tilvitnunum er 20 mínútur að gera eitthvað viti er betra 20 tímar að hugsa um að gera eitthvað af viti.
Rannsóknir sýna að um 80% fólks sem byrjar í ræktinni í janúar eru hætt að mæta innan við tveggja mánaða. Þetta er sérstaklega algengt hjá þeim sem hefja líkamsrækt sem áramótaheit án þess að hafa skýrt markmið eða áætlun. Ekki flækja hlutina! Byrjaðu á grunninum, lærðu rétta tækni og reyndu að hafa gaman af ferlinu. Ekki bera þig saman við aðra—sérstaklega ekki þá sem hafa verið að æfa í mörg ár. Það tekur líkamann tíma að aðlagast, en ef þú ert stöðug(ur) og gefst ekki upp, þá mun árangurinn koma. Og síðast en ekki síst: ekki gleyma að næra þig rétt! Þú byggir ekki hús á sandi, og það sama á við um líkamann þinn.
Hvernig myndir þú lýsa þjálfunarstílnum þínum?
Ég er sanngjarn. Ég vil að fólk nái mjög góðum árangri, en ég veit líka að fólk er misjafnt og þarf mismunandi nálgun. Ég legg áherslu á rétta tækni, árangursríka uppbyggingu og andlegt jafnvægi. Ég gef skýrar leiðbeiningar, en get líka alveg verið smá harður þegar þörf er á. Markmiðið er ekki bara að láta fólk mæta í ræktina heldur að kenna því að verða sjálfstætt og öruggt í sínum eigin æfingum.
Hver eru algeng byrjendamistök fólks þegar kemur að líkamsrækt?
Stærstu mistökin eru oft að gera of mikið, of hratt og með vitlausri tækni. Fólk kemur fullt af eldmóði, hendir sér í æfingar án þess að kunna grunnatriðin og endar á að meiða sig eða uppgefið. Önnur mistök eru að vanmeta mikilvægi mataræðis—þú getur ekki æft þig í gegnum lélegt mataræði og verið í formi, það gengur ekki upp til lengdar. Svo brenna sig margir á að hafa of miklar væntingar of fljótt og verða svo svekkt þegar væntingarnar gerast ekki. Farðu á réttum forsendum í ræktina, farðu til að styrkja þig, líða vel yfir daginn og vertu þakklátur fyrir að geta hreyft þig, vöðvarnir koma svo sem ávinningur seinna.
Hvað telur þú vera lykilinn að langvarandi árangri í líkamsrækt?
Lykilinn er að gera þetta að lífsstíl en ekki skammtímaverkefni. Fólk sem einblínir bara á „sumarformið“ eða ákveðinn dag í framtíðinni, eins og brúðkaup eða ferðalag, á það til að detta aftur í sama farið eftir á. Þess vegna þarf þetta helst að vera eitthvað sem þú getur haldið út til lengri tíma.Það er í lagi að njóta matar, það er í lagi að sleppa æfingu af og til, en það sem skiptir máli er að koma alltaf aftur á rétt ról og hafa gaman af ferlinu. Stundum getur verið gott að horfa aðeins til framtíðar og spyrja sig ,,hvar verð ég eftir 15 ár ef ég held þessum lífsstíl áfram?“, langar mig að sjá giftinguna hjá dóttur minni eða sjá barnabörnin fermast? Að vera vera í góðu formi er erfitt en að vera í lélegu er erfiðara þegar við lýtum á stóru myndina, svo veldu hvor þú vilt. Ef þú vilt raunverulegan árangur sem endist, þá er góður tími til að byrja í dag – ekki bíða eftir „rétta tímanum.“ Sendu mér skilaboð og við finnum saman gott plan fyrir þig.
Hvað gerir þú sjálfur til að halda þér í góðu formi?
Ég lyfti lóðum, spila körfubolta og svo er finnst mér stundum voðalega gott að taka léttan göngutúr, en það sem skiptir mestu máli er að ég er stöðugur í því sem ég geri og passa að vera að reyna að bæta mig. Ég hugsa líka vel um mataræðið, en án þess að vera of strangur. Ef ég vil fá mér pizzu eða köku þá geri ég það það alveg stundum en ég held góðu jafnvægi. Ég er líka með meistaragráðu í að finna mér aðeins hollari kostinn út í búð, ef mig langar í nammi þá fæ ég mér t.d. stundum hnetur með súkkalaði, kryddaðar maískökur eða frosinn ber. Líkamleg og andleg heilsa fara mikið saman, svo ég hugsa líka vel um svefn, streitu, ég hugleiði og fer með bænir nánast alla daga. Þegar ég er í góðu formi líkamlega og andlega líður mér betur og þá ég get hjálpað öðrum að gera það sama.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst