Einn ástsælasti knattspyrnumaður þjóðarinnar, Ásgeir Sigurvinsson fagnar í dag sjötugs afmæli. Ásgeir fæddist 8. maí árið 1955 í Vestmannaeyjum.
Hann hóf ferilinn með ÍBV og lék á meginlandi Evrópu með liðunum Standard Liège, Bayern München og VfB Stuttgart. Hann varð Þýskalandsmeistari með Stuttgart árið 1984 og bikarmeistari með Bayern árið 1982. Einnig vann hann bikartitla með ÍBV og Standard Liege. Ásgeir var valinn íþróttamaður ársins árin 1974 og 1984.
Á vefnum Heimaslóð eru bernskuár Ásgeirs rifjuð upp. Þar segir:
„Um leið og Ásgeir gat þá var hann kominn með bolta við fæturnar. Hann lék sér með boltann ásamt bróður sínum Ólafi og var oft erfitt að fá þá til að koma inn á réttum tíma. Þriðji bróðirinn, Andrés, hafði hins vegar engan áhuga á fótbolta og sneri hann sér að leiklist.
Ásgeir gekk snemma til liðs við strákafélagið Vísi. Um leið og hann gat gekk hann til liðs við Knattspyrnufélagið Tý og kynntist þar Adolfi Óskarssyni sem ýtti mjög undir íþróttaáhuga Ásgeirs. Knattspyrnuhæfileikar Ásgeirs komu fljótt í ljós og þegar hann var aðeins 17 ára bauð Skotinn Hal Stewart, framkvæmdastjóri Morton í Skotlandi, Ásgeiri til æfinga með liðinu. Ásgeir var fyrst lítið spenntur fyrir þessu en um haustið þáði hann boðið. Þegar allt var tilbúið og hann var kominn með farseðilinn, kom rautt ljós frá KSÍ, svo draumurinn var búinn í bili. En svo kom í ljós að aðeins hafði verið greitt fyrir aðra leiðina fyrir Ásgeir og þótti það frekar ótraustvekjandi. En þá kom Albert Guðmundsson til hjálpar og útvegaði Ásgeiri boð um að koma á æfingar með úrvalsdeildarliðinu „Glasgow Rangers“ í Skotlandi. Reyndist dvölin vera erfið og leiðinleg.
Þegar eldgosið byrjaði leit allt út fyrir að knattspyrnulið ÍBV myndi leysast upp. En ÍBV hélt áfram og var með heimavöll í Njarðvík. Það var svo þann 23. júlí 1973 að líf Ásgeirs breyttist en hann skrifaði undir samning við Standard Liege frá Belgíu.”
Ásgeir var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ þann 3. janúar árið 2015. Hann varð á sínum tíma yngsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi er hann lék með landsliðinu árið 1972, sautján ára gamall. Ásgeir lék í átta ár með Standard Liege í Belgíu, fór þaðan til Bayern München árið 1981 og ári síðar til Stuttgart þar sem hann lék þar til hann hætti árið 1990.
Ásgeir var eins og áður segir valinn íþróttamaður ársins árin 1974 og 1984. Hann varð þýskur meistari árið 1984 og var kjörinn besti leikmaður deildarinnar það árið auk þess sem hann varð í 13. sæti í kjöri World Soccer um besta knattspyrnumann heimsins sama ár.
Ásgeir náði þeim merka áfanga að verða bikarmeistari í þremur löndum, á Íslandi með ÍBV árið 1972, í Belgíu með Standard Liege árið 1981 og í Vestur-Þýskalandi með Bayern München árið 1982.
Hann lék alls 481 deildarleiki á ferlinum, 21 með ÍBV (7 mörk), 249 með Standard Liege (57 mörk), 17 með Bayern München (1 mark) og 194 með Stuttgart (39 mörk). Ásgeir náði að skora 103 mörk í þessum leikjum en hundraðasta deildarmarkið hans kom í 4-0 stórsigri Stuttgart á Nürnberg 13. september 1988. Ásgeir spilaði alls 60 leiki í Evrópukeppni fyrir sín félög og skoraði í þeim tólf mörk.
Ásgeir átti einnig glæstan og farsælan feril með landsliði Íslands en hann lék alls 45 landsleiki. Árið 2003 valdi Knattspyrnusamband Íslands Ásgeir sem sinn „Golden player“, besta íslenska knattspyrnumann síðastliðinna 50 ára þar á undan. Valið var í tengslum við 50 ára afmæli UEFA.
Eyjafréttir óska Ásgeiri innilega til hamingju með afmælið. Sigurgeir Jónasson tók myndirnar af afmælisbarni dagsins sem eru hér að neðan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst