Ásta frá Hlíðardal lítur um öxl
28. júlí, 2024
Ásta S. Guðjónsdóttir á svölunum heima hjá sér í Sjálandshverfi Garðabæjar í apríl 2024. Mynd: Atli Rúnar Halldórsson.

„Sjómannadagurinn var alltaf hátíðlegur haldinn, tilhlökkunarefni fjölskyldunnar og mikið um að vera. Kappróður og koddaslagur við höfnina og yfirleitt viðraði þokkalega til útiveru. Það segir sína sögu að börnin okkar fengu jafnan ný föt fyrir sjómannahátíðina.  

Þjóðhátíðin var samt stærsta samkoma sumarins en í minningunni var  ekki mikið tilstand 17. júní.  

Auðvitað stendur þjóðhátíðin upp úr og síðustu árin var fjölskyldan með tvö hústjöld hlið við hlið í Herjólfsdal. Í öðru þeirra var merkilegur bekkur sem á sínum tíma var á biðstofu útibússtjóra Útvegsbankans í Vestmannaeyjum. Á bekknum sátu þeir sem biðu eftir viðtali um lán eða aðra fyrirgreiðslu.  

Mörgum gestum okkar í þjóðhátíðartjaldinu þótti mikið sport að rifja upp fyrri kynni af bankastjórabekknum eða stofna til nýrra kynna við hann – af allt öðru og skemmtilegra tilefni en því að bíða eftir víxilláni.“ 

Ásta Sigurbjörg Guðjónsdóttir frá Hlíðardal gaf færi á samtali um lífið og tilveruna í vistlegri íbúð sinni í Sjálandshverfi Garðabæjar. Skilyrði var að spjallið yrði síðdegis því dagur viðmælandans hefst jafnan á morgunrölti með góðri vinkonu og svo grípa heldri borgarar í spil.  

Í febrúar var Ásta á Kanaríeyjum ásamt elsta syni sínum, Guðjóni Ragnari, framkvæmdastjóra, fyrrverandi útgerðarmanni í Vestmannaeyjum og stjórnarmanni í Vinnslustöðinni frá 1992 til 1997, og tengdadótturinni, Ragnheiði Einarsdóttur.  

Ásta var líka fyrir skömmu á Akureyri og heimsótti son sinn, Hörð Þór, og tengdadótturina, Sigrúnu Gísladóttur. Þau reka gistiheimilið H-hostel í gamla Amarohúsinu í miðbæ Akureyrar. 

Ásta og Rögnvaldur eignuðust líka Bryndísi hönnuð, gifta Unnari Guðmundssyni útgerðarmanni; Hallgrím, eiganda veitingastaðarins Sælands (áður Canton) og útgerðarmann í Vestmannaeyjum, og Rannveigu þjónustufulltrúa, gifta Halldóri Halldórssyni, öryggisstjóra Landsnets 

 

Rögnvaldur og Ásta með börnin sin fimm. Hann heldur á Rannveigu og aftan við frá vinstri eru Guðjón, Hallgrímur, Hörður og Bryndís. Mynd: Óskar Björgvinsson.

 

Afkomendur eru alls 79 (5 börn, 20 barnabörn, 51 barnabarnabarn og 3 barnabarnabarnabörn) og Ásta man fæðingardaga flestra! 

95 ára í byrjun ágúst 

Ef á annað borð er hægt að tala um að Ásta sé sest í helgan stein er steinninn sá á mikilli hreyfingu. Heilsugæslulækni nokkrum var nokkur vorkunn þegar Ásta átti erindi við hann og svaraði því skilmerkilega að hún væri fædd árið 1929.  

– Þú meinar 1939? sagði þá doktorinn. 

– Nei, ég sagði 1929 og meina það. 

Þann 1. ágúst í sumar slær æviklukka Ástu 95 högg en útlit verðandi afmælisbarns gæti bent til þess að slögin yrðu bara 80, í mesta lagi 85 en ekki einu höggi betur. 

Samt hefur heilsulánið síður en svo leikið við Ástu. Þegar hún stóð á níræðu, og var stödd í Smáralind í Kópavogi til að sækja starfræn skilríki í farsímann sinn, blæddi inn á heila. Skyndilega leit hún tilveruna öðrum augum en eðlilegt gat talist, komst heim til sín í Garðabæ en hitti sem betur fer hjón sem hún þekkti við lyftudyr á jarðhæð. Þeim krossbrá. 

„Þau horfðu á mig, sáu að ég var máttlaus vinstra megin í andliti og augað nánast úti á kinn og fóru strax með mig á heilsugæsluna. Þar missti ég meðvitund og rankaði við mér á spítala.  

Þetta gekk sem betur fer allt til baka með umönnun og endurhæfingu og nú kenni ég mér ekki meins sem þessu áfalli tengist. Læknum þótti batinn víst með nokkrum ólíkindum og spurðu: 

– Sérðu með vinstra auganu? 

– JÁ!  

Þeir spurðu aftur og í þriðja sinn en fengu alltaf sama svarið.“ 

Örlagaballið í Stapa 

Ásta er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum en eiginmaðurinn, Rögnvaldur Þór Rögnvaldsson (1930-2015), var Reykvíkingur og lést eftir erfið veikindi. Leiðir þeirra lágu saman í Félagsheimilinu Stapa í Njarðvík. Umtalsvert fyrirtæki var að fara á ball í Stapa og nauðsynlegt að tryggja sér gistingu í tæka tíð á Suðurnesjum. Þetta lögðu þau á sig hvort í sínu lagi og stigu bæði dans og gæfuspor, án þess að vita hvort af öðru fyrr en á hólminn var komið. 

 

Rögnvaldur og Ásta endurnýjuðu vegabréfin sín árið 1979 Þá voru myndirnar teknar.

 

„Við vorum nokkrar stelpur úr Eyjum sem störfuðum fyrir sunnan, sjálf var ég í Sokkabúðinni að Laugavegi 42. Á sama tíma vann Rögnvaldur hjá Rafveitu Reykjavíkur.  

Stapi þótti spennandi ballstaður vegna þess að þangað komu Ameríkanar af Vellinum til að skemmta sér og líta á píurnar. Fjórar vinkonur mínar vildu ólmar komast suður eftir á ball þetta tiltekna kvöld en ég var ekki spennt fyrir að fara, alla vega þóttist ég ekki vera það! Þær gengu þá hart að mér enda vitað að við gátum gist hjá uppáhaldsfrænda mínum í Keflavík. Ég taldi fullvíst að hann myndi hýsa okkur allar orðalaust, sem og varð. 

Rögnvaldur fór í Stapa með systur sinni og vinum og gisti hjá móðursystur sinni í Njarðvík. Hann sagði gjarnan svo frá að hann hefði mælt okkur út, Eyjadömurnar, og að sér hefði litist allra best á mig. Látum það standa en alla vega byrjaði þarna samband sem varð að hjónabandi 15. desember 1949.  

Við hófum búskap að Framnesvegi 34 í Reykjavík en fluttum fljótlega til Vestmannaeyja. Þangað kom ég með eiginmann og barn 1951 og við réðumst strax í að byggja yfir okkur að Brimhólabraut 23. Rögnvaldur útbjó tvöfaldan niðurgrafinn brunn við húsið til að safna í regnvatni úr þakrennnum.  

Vatnsmál Eyjamanna voru sérstakt viðfangsefni sem aðrir landsmenn þekktu í mesta lagi af afspurn en ekki af eigin raun. Rögnvaldur minn var auðvitað ekki öðru vanur frá Reykjavík en að nóg væri af heitu og köldu vatni úr krönum heimilanna. Ég þurfti því stundum að kalla og minna hann á að láta ekki vatnið leka svona mikið.  

Enn þann dag í dag læt ég vatn renna eins lítið og mögulegt er. Það er innprentað í Eyjasálina.“ 

Loðnubrestur en samt ekkert að frétta 

Ásta er mjög með hugann við Vestmannaeyjar, Eyjamenn, atvinnulífið og samfélagið yfirleitt. Loðnubresturinn kom illa við hana. 

„Já, það fór i illa í mig að ekki skyldist veiðast loðna í ár og ég hugsa oft til afkomu fólksins og bæjarfélagsins í því sambandi. Það er auðvitað þungt högg fyrir þá sem veiðarnar stunda og tilheyrandi byggðarlög sem missa af öllum þessum tekjum. Og auðvitað er það högg fyrir þjóðina alla. Samt er eins og loðnubrestur sé aukaatriði sem litlu máli skipti og varla að minnst sé á afleiðingarnar í fréttum eða í umræðum yfirleitt. Við borgum fyrir Ríkisútvarpið en þar er nú ekki haft hátt um heila loðnuvertíð sem gufaði upp. 

Ég er bara þannig gerð að ég vil fylgjast með hvernig gengur til sjávarins og velti til dæmis fyrir mér hvort vetrarvertíðin hverju sinni skili því sem vonast er eftir.“ 

Unnið í Eyjum fyrir færeysku húsi og hjónabandi 

„Margir Færeyingar komu á vertíð til Vestmannaeyja forðum daga, þar á meðal tveir sem reru með föður mínum. Sá yngri lagði fyrir eins og hann mögulega gat til að geta byggt hús fyrir sig og sína heima fyrir. Sá var trúlofaður og parið fékk skýr skilaboð frá sínum nánustu um að eignast íbúð eða hús áður en lengra yrði gengið og blásið til brúðkaups.  

Ég fór á sínum tíma til Færeyja með eldri borgurum í Garðabæ, hafði upp á afkomendum þessa sjómanns og fékk að sjá húsið sem hann vann fyrir í Vestmannaeyjum og fékk eiginkonu út á!  

Sjávarútvegurinn dregur þannig marga vagna og þjóðin á honum ótal margt að þakka. Stundum mætti samt ætla að þessi undirstöðuatvinnugrein sé frekar til óþurftar en góðs. Þá er mér mjög misboðið.“  

Óveður, myrkur og allt svart 

Hjónin Ásta Guðjónsdóttir frá Hlíðardal fór í land með Gjafari VE-300 gosnóttina í janúar 1973 og með henni börnin en eiginmaðurinn Rögnvaldur Þór var ekki með í sömu ferð en kom síðar, einnig með Gjafari. Með í för var líka móðir Ástu, Rannveig Eyjólfsdóttir (1896-1982), Veiga í Hlíðardal. 

„Við nutum þess að Guðjón, elsti sonur minn, var yfirvélstjóri á Gjafari og fengum klefa til að vera í á leiðinni. Ég hélt að Rögnvaldur væri líka um borð en svo var ekki. 

Guðjón kom niður til okkar þegar við vorum lögð af stað, bað mig um að koma með sér upp á dekk og sagði að ég sæi innsiglinguna ef til vill í síðasta sinn. Menn óttuðust strax þá að hraun kynni að loka höfninni en blessunarlega tókst að hindra það, meðal annars með sjódælingu á hraunkantinn. Guðjón sagði mér þarna að pabbi sinn væri ekki um borð, hann væri að bjarga húsmunum í Kirkjubæ og fleiru sem væri í hættu vegna öskufalls og streymandi hrauns.  

Börnin okkar, Hallgrímur, Hörður og Rannveig, voru með mér í skipinu og Bryndís sömuleiðis. Hún var flutt að heiman og farin að búa við Heimagötu með eiginmanni sínum, Unnari Guðmundssyni, útgerðarmanni frá Háagarði, og dóttur þeirra, Ingibjörgu Ástu. 

 

Þjóðhátíð í Herjólfsdal 1960. Til vinstri er Gynda María Davidsen, færeysk mágkona Ástu, með Steinunni Þorvaldsdóttur (systurdóttir Ástu). Í miðið mæðgurnar Ásta og Bryndís og til hægri Rögnvaldur með Hallgrím í fanginu.

 

Við gengum á land í Þorlákshöfn og fórum þaðan beint í Bogahlíð 8 í Reykjavík þar sem Magga systir mín bjó. Móðir mín og Bryndís dvöldu þar áfram en ég fékk inni með börnin hjá mágkonu minni í Reykjavík. 

Seint á gosárinu, í nóvember 1973, fórum við til Vestmannaeyja til að líta á húsið okkar og aðstæður allar. Fólk var þá byrjað að flytja heim og til greina kom að við gerðum það líka. Húsið var í góðu lagi en við lentum í illviðri, síminn var ekki tengdur, slökkt á götuljósum og öskulag yfir umhverfinu.  

Myrkur og allt svart  hvert sem litið var. Það gerði útslagið og við ákváðum að flytja ekki aftur til Eyja. Þá horfðum við líka til þess að börnin væru komin í skóla fyrir sunnan.  

Ég var hissa á því að barnafjölskyldur tækju börn úr skólum á meginlandinu og flyttu til Eyja við þessar aðstæður. Góð vinkona sagði mér síðar frá ástæðum þess að hún flutti heim strax á gosárinu með fjölskylduna, þvert gegn vilja sínum. Hún sagði að bankakerfið hefði þrýst á að útgerðarmenn sem skulduðu í húsum sínum að flytja heim. Um þetta hefði fólk bara ekki þorað að tala upphátt. 

Við keyptum fljótlega blokkaríbúð við Álfaskeið í Hafnarfirði og fljótlega eftir gos var hringt í manninn minn og honum gert tilboð um að selja húsið okkar að Brimhólabraut gegn staðgreiðslu. Því var tekið.  

Við áttum áfram æskuheimilið mitt, Vestmannabraut 65b. Það varð sumarbústaður okkar hjóna og barnabörnin nutu líka góðs af húsinu þegar þau komu á Þjóðhátíð eða voru í öðrum tilgangi í heimsókn í Eyjum.“ 

 

Grein úr 10. tbl. Eyjafrétta.

Facebook
X
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
Forsida EF 1 Tbl 2025
1. tbl. 2025

NÝBURAR

76e2af77 02d9 48eb B73a 24c32e2403ac
4. janúar 2025
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Katrín Rós Óðinsdóttir og Sæþór Örn Garðarsson.

NÝBURAR

Drengur
3. desember 2024
Drengur
Kaupmannahöfn
Selma Jónsdóttir og Matthías Óskarsson

NÝBURAR

Drengursnorrason
23. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Svanhildur Eiríksdóttir og Sindri Sigfússon

NÝBURAR

Lovisu
8. október 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Lovísa Jóhannsdóttir og Jökull Andri Sigurðsson

NÝBURAR

462560821 8781643355208571 772013136079801246 N
17. október 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Aníta Björk Friðriksdóttir og Sigurbjörn Þórður Árnason.

NÝBURAR

Tandri
13. september 2024
Drengur
Hsu, Vestmannaeyjum.
Dagur Arnarsson og Svava Tara Ólafsdóttir.

NÝBURAR

Bfec0ecf E4f8 466a 89f9 94c607ba1ec5
24. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Óskar Elías Zoega Óskarsson og Díana Ólafsdóttir

NÝBURAR

Natan Orn
14. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Þórey Lúðvíksdóttir og Elías Skæringur Guðmundsson

NÝBURAR

F4c5612c Ae8a 4d77 B83d C5f14f2007fe
26. september 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík.
Þorgeir Þór Friðgeirsdóttir og Elín Inga Halldórsdóttir

NÝBURAR

Moller
20. september 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
William Thomas Möller og Jenný Guðnadóttir.

NÝBURAR

E50c5f3f Ddd5 4ee2 8685 Dad7e0e417ad
2. ágúst 2024
Stúlka
Fæðingadeild HVE, Akranes
Sigurdís Egilsdóttir og Gunnlaugur Örn Guðjónsson

NÝBURAR

Drengur Hristov
2. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Todor Hristov og Marta Möller

NÝBURAR

Nýburi
30. júlí 2024
Stúlka
Heimahúsi á Dalvík
Alexandra Ósk Gunnarsdóttir og Brynjar Ingi Óðinsson

NÝBURAR

Nýfædd stúlka.
4. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Theodóra Ágústsdóttir & Carlos Guani

NÝBURAR

IMG 3174
15. júlí 2024
Drengur
Balingen, Þýskalandi
Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason

NÝBURAR

tryggvason
30. júní 2024
Drengur
Reykjavík
Tryggvi Stein Ágústsson og Guðný Erla Guðnadóttir

NÝBURAR

nyburar
4. júlí 2024
Drengur
Reykjavík
María Rós Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Heimir Kristinsson

NÝBURAR

jon
20. júní 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Logi Snædal Jónsson og Svala Björk Hólmgeirsdóttir

NÝBURAR

Admin Ajax
10. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Unnur Birna Hallgrímsdóttir og Guðmundur Sundström

NÝBURAR

IMG 2282 940x940
29. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir og Felix Örn Friðriksson
Mest lesið
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst