Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið fram í þrítugasta og fyrsta sinn. Að þessu sinni sóttu alls tólf leikfélög um að koma til greina við valið með þrettán sýningar. Formaður dómnefndar var Vala Fannell, en með henni í dómnefnd sátu Elísa Sif Hermannsdóttir sýningarstjóri og Almar Blær Sigurjónsson leikari. Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2022-2023 sýningu Leikfélags Vestmannaeyja á Rocky Horror.
Umsögn dómnefndar um sýninguna: Það er samdóma álit dómnefndar að sýning Leikfélags Vestmannaeyja á Rocky Horror í leikstjórn Árna Grétars Jóhannssonar skuli verða fyrir valinu sem athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2022-2023. Sýningin er unnin af gríðarlegum metnaði og hvergi slegið af kröfum við uppfærsluna. Umgjörð sýningarinnar er einföld en áhrifarík og vel tekst að fanga hið hráa andrúmsloft sem verkið er þekkt fyrir. Myndband og hljóð er vel unnið, sem og leikgervi og búningar. Dans og ljós vinna vel saman í fallegri heild og eru hópsenurnar einstaklega vel útfærðar. Leikhópurinn er sterkur og skemmtilegur, bæði í söng og leik, og stendur þétt saman og skapa fallega heild. Hver og ein persóna fær sitt pláss, leikararnir skila persónunum ljóslifandi og leikgleði og orka ráða ríkjum. Tónlistarflutningur í sýningunni er til algjörrar fyrirmyndar og eiga þar tónlistarstjóri og hljómsveit sérstakt hrós skilið. Það má sjá sköpunargleði hvers og eins sem að sýningunni kom skína í gegn og úr verður heildstæð og kraftmikil sýning. Það skal tekið fram að þetta er í fyrsta sinn sem sýning Leikfélags Vestmannaeyja er valin áhugasýning ársins.
Þjóðleikhúsið óskar Leikfélagi Vestmannaeyja til hamingju og býður leikfélaginu að koma og sýna Rocky Horror á Stóra sviði Þjóðleikhússins í júní.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst