Strætó hefur sett upp 21 aukaferð yfir Þjóðhátíðina, en þær eru aðeins hugsaðar fyrir farþega sem eru á leið til Eyja. Á heimasíðu strætó (straeto.is) segir um aukaferðirnar: „Allar aukaferðir eru skipulagðar með áætlun Herjólfs að leiðarljósi en þær munu einungis stoppa í Mjódd, Hveragerði, N1 Selfossi, Hellu, Hvolsvelli og Landeyjahöfn.“
Samkvæmt upplýsingum frá Strætó er ekki í boði að nýta sér ferðirnar til baka, þ.e. úr Landeyjahöfn, strætó fer s.s. tómur til Reykjavíkur. Eyjafréttir beindu þeirri fyrirspurn til forsvarsmanna Strætó af hverju ekki væri t.d. unnt að taka með þá farþega sem biðu þegar vagninn kæmi í Landeyjar og hann myndi síðan stoppa aftur á sömu stöðum í bakaleiðinni aðeins til að hleypa út farþegum.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó vísaði á Vegagerðina í svari til Eyjafrétta. „Vegagerðin ber ábyrgð á þessum akstri. Mátt beina fyrirspurninni þangað.“ sagði Jóhannes. Beðið er svara frá Vegagerðinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst