„Menn eru náttúrulega gífurlega ósáttir og þetta er bara ávísun á verkfall,“ sagði Bergur Kristinsson, formaður skipstjóra og stýrimannafélasins Verðandi þegar hann var spurður út í afnám sjómannaafsláttarins. „Ég var á farmanna- og fiskimannaþingi á fimmtudag og föstudag og þar var smá fjör. Þegar fréttin um afnám sjómannaafsláttarins barst okkur, afþökkuðum við boð Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra og Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna var eiginlega hrakinn í burtu. Það endaði með því að hann sagði sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir sjómenn,“ sagði Bergur og er óhress með viðbrögð forystumanna sumra stéttarfélaga.