Kristján G. Rikharðsson fyrir hönd Lavaspring Vestmannaeyjar ehf. lagði fram drög að skipulagsgögnum fyrir baðlón við Skansinn. Umhverfismatsskýrsla er unnin af ráðgjafafyrirtækinu Alta. Einnig hefur verið unnin tillaga að breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 í samræmi við tillögu þróunaraðila. Gögnin voru sett fram til kynningar fyrir umhverfis- og skipulagsráð.
Ráðið þakkaði kynninguna og fól skipulagsfulltrúa að kynna gögn fyrir bæjarstjórn áður en farið verður í næstu skref skipulagsferlisins.
Hugmyndin er ekki ný. Í desember 2020 er í Morgunblaðinu sagt frá hugmyndum um um að reisa nýtt baðlón sem staðsett verður á ofanverðum Skansinum í Vestmannaeyjum. Gert var ráð fyrir heitu baðlóni ásamt heitum pottum, gufuböðum og innbyggðum hraunhelli. Jafnframt verður aðstaða fyrir veitingasölu og aðra þjónustu fyrir gesti lónsins.
Baðlónið verður um 1.400 fermetrar að stærð og byggingin sjálf um 1000 fermetrar. Þá eru uppi framtíðarhugmyndir um að reisa 50 herbergja hótel í tveimur byggingum, sem staðsettar verða í hlíðum fjallsins.
Morgunblaðið vísar í heimasíðu Vestmannaeyjabæjar, vestmannaeyjar.is þar sem segir að á fundi bæjarráðs hafi verið til umfjöllunar drög að viljayfirlýsingu Vestmannaeyjabæjar og Lava Spring Vestmannaeyjar ehf. um gerð baðlónsins.
Bæjarráð fagnaði áformum um uppbyggingu Lava Spring Vestmannaeyjar ehf. um gerð baðlóns í Eyjum. Kristján og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri skrifuðu undir viljayfirlýsingu í framhaldi af því.
Kristján sem oft er kenndur við fyrirtæki sitt, Skugga lét til sín taka í Eyjum þegar hann byggði einbýlishús við Búhamar og gerði upp Bása og Símstöðina fyrir nokkrum árum.
Útsýni frá veitingastaðnum yrði ekki af verri endanum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst