Bæjarstjórn lýsir yfir verulegum vonbrigðum með stöðu dýpkunarmála
3. febrúar, 2024

Umræða um samgöngumál fór fram á fundir bæjarstjórnar í síðustu viku. Bæjarstjóri fór yfir stöðuna í samgöngumálum við Vestmannaeyjar sem hefur verið mjög þung undanfarna mánuði, siglingar í Landeyjahöfn hafa verið mikið skertar og höfnin oft lokuð vegna dýpis. Bæjarráð hefur óskað eftir gögnum frá Vegagerðinni um ástæður þess að illa gengur að dýpka.

Höfnin er ekki tilbúin og ef Landeyjahöfn á að vera samgöngumáti Vestmannaeyinga þarf að ljúka við framkvæmdina á höfninni til þess að hún nái þeim markmiðum sem sett voru í upphafi um nýtingu hennar. Það er ekki bara dýpið sem truflar heldur líka ölduhæðin sem orsakar frátafir í siglingum og mæta ekki þeim viðmiðum sem sett voru í upphafi.

Kjörnir fulltrúar eru í miklum samskiptum við yfirvöld sem stýra þessum málaflokki. Samgönguyfirvöld bera ábyrgð og eiga að tryggja samgöngur við Eyjar. Reglulegir fundir eru með Vegagerðinni, ráðherrum, þingnefndum og öllum þeim sem málið varða. Alltaf er verið að ræða þessi mál.

Í næstu viku mun innviðaráðherra og vegamálastjóri mæta á íbúafund um samgöngur og eru bæjarbúar hvattir til að fjölmenna, enda fundurinn hugsaður fyrir þá til að eiga milliliðalaust samtal við þá ráðamenn sem bera ábyrgð á samgöngum Vestmannaeyinga. Það er nauðsynlegt að við vinnum þetta saman sem samfélag og höldum þrýstingnum á stjórnvöldum um bættar samgöngur.

Starfshópur er í gangi sem innviðaráðherra skipaði og á hann að klára matið á fýsileika gangna til Eyja, bæði fjárhagslegan og framkvæmdarlega. Það er mjög brýnt að niðurstaða komi sem fyrst frá þeim hópi svo hægt sé að stíga næstu skref í samgöngum til framtíðar.

Vestmannaeyingum hefur undanfarin ár verið lofað ríkisstyrktu flugi og loksins hillir undir það næsta haust og þá er hægt að hætta þeim vandræðagangi af hálfu ríkisins sem verið hefur á hverjum vetri undanfarið ár varðandi flugið.

Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar um málið segir:

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir verulegum vonbrigðum með stöðu dýpkunarmála við Landeyjahöfn og skorar á samgönguyfirvöld að taka almennilega á málaflokki samgangna við Vestmannaeyjar.

Landeyjahöfn
Fyrirheit um nýtingu hafnarinnar fyrir ferjusiglingar hafa því miður ekki staðist. Ofan á slæmar aðstæður og veðurfar, gengur afleitlega að halda höfninni opinni eins og vænta mætti miðað við kostnað við dýpkun hafnarinnar. Engar haldbærar skýringar liggja fyrir hvers vegna dýpkun gengur jafn illa yfir veturinn og raun ber vitni. Það hlýtur að vera krafa Vegagerðarinnar að samningsaðilar uppfylli sínar skyldur við dýpkun hafnarinnar. Landeyjahöfn er ófær til siglinga stóran hluta vetrarins, með miklu óhagræði og skerðingu ferðafrelsis fyrir íbúa og atvinnulíf en ferðaþjónustan í Vestmannaeyjum liggur af þeim sökum nær alveg niðri stóran hluta ársins sem verður að teljast óásættanlegt í ljósi þess sem lagt var upp með framkvæmdinni í upphafi.

Flugsamgöngur
Flugsamgöngur við Vestmannaeyjar eru bráðnauðsynlegar yfir vetrartímann og þeim mun mikilvægari þegar siglingar liggja niðri til Landeyjahafnar líkt og verið hefur stóran hluta síðasta vetrar. Ítrekað hafa bæjaryfirvöld bent á öll þau rök sem snúa að mikilvægi áætlunarflugs til Eyja. Ekki hefur vantað skilning ráðherra og þingmanna á þeim rökum, en sárlega hefur vantað eftirfylgni til að láta það raungerast. Áætlunarflug er m.a. afar mikilvægt fyrir íbúa til að sækja sér ýmsa þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð, þ.á.m. grunnheilbrigðisþjónustu, fyrir atvinnulífið til að fá liðsauka og svo ýmsa þjónustu fyrir þá einstaklinga sem eiga erfitt með löng ferðalög.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja væntir þess að ráðamenn muni fjölmenna á íbúafund um samgöngumálin þann 30. janúar nk. í Eyjum. Þar þurfa Eyjamenn að geta fengið svör og skýringar við þeim vandamálum sem við blasa í samgöngumálum og einnig hver áform samgönguyfirvalda eru til að bæta stöðuna til framtíðar.

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst