Bandaríska sjónvarpstöðin PBS heldur út vinsælum þætti sem nefnist Nature eða Náttúran. Í gegnum árin hefur Nature fært fegurð og undur náttúrunnar inn á bandarísk heimili og orðið að viðmiði náttúrusöguþátta í bandarísku sjónvarpi. Þáttaröðin hefur hlotið meira en 600 viðurkenningar frá sjónvarpsiðnaðinum, alþjóðlegum kvikmyndasamtökum um dýralíf, foreldrasamtökum og umhverfissamtökum – þar á meðal 10 Emmy-verðlaun, þrjú Peabody-verðlaun og fyrstu viðurkenninguna sem Sierra Club hefur veitt þáttum.
Í fyrra kom fólk frá stöðinni til Vestmannaeyja til að fylgja eftir pysjubjörgunarfólki. Afraksturinn er tæplega 13 mínútna heimildarmynd sem stöðin birti nýverið. Þar segir m.a. að þegar lundapysjur þurfa að yfirgefa holuna, eru þúsundir þeirra dregnar að ljósum bæjarins frekar en að fljúga út á haf. Þegar þær eru komnar í bæinn festast pysjurnar þar og komast ekki á haf út.
Til að bregðast við fer samfélagið í „lundapysjueftirlit“ á hverju kvöldi á lundatímanum. Börn jafnt sem fullorðnir leita að pysjunum um allan bæ og koma með þær í Lundabjörgunarmiðstöðina, þar sem Kim Cupples og teymi hennar framkvæma heilsufarsskoðun. Bæjarbúar fara svo með heilbrigðu pysjurnar aftur á vissa staði eyjarinnar og nota einstaka aðferð til að koma þeim í öruggt skjól, með því að kasta þeim út á haf. Horfa má á þáttinn hér að neðan en þess má geta að yfir 90 þúsund manns hafa horft á þáttinn á rúmlega tveimur vikum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst