Bara piss, kúk og klósettpappír
19. nóvember, 2020

Alþjóðlegi klósettdagurinn er í dag fimmtudag og ætla Umhverfisstofnun og Samorka að stofna til vitundarvakningar um hvað má fara í klósettið og hvað ekki. Á hverju ári berast um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanausta í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.
Úrgangur í fráveitu er vandamál um allt land. Auk þess að skaða umhverfið og þyngja rekstur fráveitukerfa, hleypur kostnaður sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar rusls í fráveitum á tugum milljóna króna á ári. Vegna ástandsins sem nú ríkir í samfélaginu eyða fleiri auknum tíma heima hjá sér, þar með eykst úrgangsálag á fráveitukerfin. Stærsta vandamálið eru blautþurrkur og/eða sótthreinsiklútar, auk smokka, tannþráðar og eyrnapinna.

Stífla að völdum blautklúta úr fráveitukerfi Vestmannaeyjabæjar

Blautklútar til vandræða í Vestmannaeyjum
“Þetta er vandamál hér eins og á fleiri stöðum,” segir Ólafur Snorrason hjá umhverfis og framkvæmdasviði Vestmannaeyjabæjar. “Helstu vandamál okkar líkt og annarra eru blautklútar sem festast í dælum og þarf að taka dælurnar í sundur og hreinsa. Kostnaður við hverja aðgerð nemur nokkur hundruð þúsundum króna auk þess sem óþarfa slit verður á dælum og öðrum búnaði. Fráveitudælur eru dýrar og lauslega áætlað kostar hver dæla allt að 12 milljónum króna með öllu. Við erum í dag með 11 dælur sem á álagstímum eru flestar í gangi. Stýringar á dælum eru í gegum vefstýringarkerfi með gangtímajöfnun, álagsstýringum og tíðnibreytum til að hámarka endingu og minnka rekstrarkostnað.”

Ótrúleg hegðun
Ólafur segir það ótrúlegt að sjá hvað er sett í fráveitukerfi. “Það er eins og sumir haldi að við það að losa sig við efni í klósett eða niðurfall þá hverfi vandmálið. Það er ekki svo heldur geta aðskotahlutir valdið tjóni á dælum og lokum og við verstu aðstæður gert kerfin óvirk. Það getur farið illa þegar mikið álag verður og við höfum ekki allt kerfið viðbúið. Slíkt hefur gerst með tilheyrandi óþægindum og jafnvel tjóni.”

 

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst