ÍBV og HK skildu jöfn í N1 deild kvenna í dag en liðin áttust við í Eyjum. Lokatölur urðu 27:27 en HK jafnaði úr víti þegar tæp mínúta var eftir. Það gaf hins vegar alls ekki rétta mynd af gangi mála í leiknum í dag því HK var nánast með leikinn í hendi sér fyrstu 45 mínúturnar. En síðasta stundarfjórðunginn tóku Eyjastúlkur við sér, röðuðu inn mörkunum og áttu góða möguleika á að vinna. En heppnin var ekki með ÍBV, HK jafnaði úr víti og niðurstaðan því jafntefli.