Ísfisktogarinn Bergey VE kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum nú skömmu fyrir hádegi með fullfermi að aflokinni sex daga veiðiferð. Skipstjóri var Ragnar Waage Pálmason og ræddi tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar við hann í morgun. „Jú, við erum á landleið með góðan afla en því miður fengum við í aðra skrúfuna í lokaholinu. Það er fúlt að fá í skrúfuna en nú er svo sannarlega gott að hafa tvær vélar og tvær skrúfur. Við siglum á sjö til átta mílna ferð á annarri skrúfunni og nálgumst Eyjarnar hratt og örugglega. Í þessum túr vorum við mest að fiska í Skaftárdýpi og Skeiðarárdýpi og fengum þar blandaðan afla. Aflinn er mest ýsa en einnig dálítið af þorski, ufsa, lýsu og karfa. Veðrið í þessari veiðiferð var hundleiðinlegt allan tímann, samfelld norðaustan bræla. Yfirleitt voru þetta 20-25 metrar en í fyrradag dúraði svolítið, þá voru bara 15. Þegar veðrið lét sem verst þurftum við að flýja upp að landinu,“ segir Ragnar.
Systurskipið Vestmannaey VE kom til löndunar í Vestmannaeyjum sl. nótt með fullfermi. Aflinn er blandaður og fékkst í Breiðamerkurdýpinu. Að sögn Egils Guðna Guðnasonar skipstjóra var það veðrið sem réði algerlega för í túrnum. „Þetta var erfitt. Við þurftum sífellt að vera að sæta lagi og urðum jafnvel að flýja upp í fjöru. Þetta var leiðindaveður allan túrinn og það getur verið þreytandi,“ segir Egill Guðni.
Dagskrá í Sagnheimum um sjóslysið við Eiðið fyrir 100 árum
Fylgstu með
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Við notum vefkökur til að gera upplifunina þína á vefnum okkar sem besta. Ef þú heldur áfram að nota síðuna, þá gerum við ráð fyrir að þú sér sátt/sáttur við það.OkPrivacy policy