Hafnarvogin í Vestmannaeyjum bilaði með þeim afleiðingum að það hafði áhrif á niðurstöður vigtunar. Gögn sýna að veruleg frávik hafi verið í útreikningum ísprósentu vegna bilunarinnar og að hún hafi hugsanlega viðgengist lengur en Fiskistofa telur. Þetta getur hafa orðið til þess að upplýsingar sem notaðar hafa verið við aflaskráningu hafa verið rangar. Þetta kemur fram í frétt á vef mbl.is
Í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins vegna málsins segir Fiskistofa að samkvæmt þeim upplýsingum sem stofnunin hafi „biluðu kraftnemar í hafnarvoginni í Vestmannaeyjum í mars sl. og var viðgerð lokið undir lok sama mánaðar. Margt bendir til þess að bilunin hafi haft áhrif á niðurstöður hafnarvigtunar að einhverju leyti. Ljóst er að skekkja í hafnarvigtun getur í einhverjum tilvikum ruglað íshlutfall við endurvigtun sem er mismunur á vigtun á hafnarvog og niðurstöðu endurvigtunar hjá vigtunarleyfishafa.
Neikvæð 63 kíló af ís
En samkvæmt gögnum sem Morgunblaðið hefur undir höndum eru dæmi sem sýna að bilunin hafi komið upp mun fyrr en í mars, þvert á það sem Fiskistofa segir í svari sínu. Til að mynda sýndi vigtun 15 kara af gullkarfa 28. janúar með hafnarvog í Vestmannaeyjum að brúttóvigt (fiskur og ís) hefði verið 4.130 kíló, þar af 3.728 kíló af fiski og 402 kíló af ís. Ísprósentan var því 9,73%.
Níu kör voru tekin til endurvigtunar og voru í þeim 465 kíló af ís sem merkir að samkvæmt hafnarvoginni ættu þá að vera neikvæð 63 kíló af ís í þeim sex körum sem ekki voru endurvigtuð en 310 kíló samkvæmt endurvigtun og nam því hlutfallið 17,21%. Sama dag sýndi endurvigtun á þremur körum af löngu 155 kíló af ís en hafnarvogin 101 kíló, eða frávik sem nemur 53%.
Sambærilega sögu er að segja af vigtun tveggja kara af löngu 22. febrúar. Þá var brúttóvigt karanna 746 kíló á hafnarvog en 486 kíló við endurvigtun, nemur því frávikið 53,4%. Mældist ís í körunum 360 kíló, 48,3%, á hafnarvog en 100 kíló, 20,6%, við endurvigtun.
Grundvöllur eftirlits
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafði vigtunarleyfishafi gert tilraun í febrúar til þess að koma á framfæri athugasemdum um stöðu vigtunarmála í Vestmannaeyjum, en það var fyrst þegar starfsmenn Fiskistofu sáu frávikin við yfirstöðu vigtunar í mars, sem kom til vegna frávikanna, að uppgötvaðist að frávikin væru óvenjuleg og málið fyrst þá tekið til nánari skoðunar.
Hlutfall íss við vigtun skiptir fyrst og fremst máli hvað varðar eftirlit með aflaskráningu og geta mikil frávik í ísprósentu frá meðaltali útgerðar orðið til þess að hert verði eftirlit með viðkomandi útgerðaraðila. Þá hafa vigtunartölur sem sendar eru Fiskistofu frá hafnarvogum og vigtunarleyfishöfum meðal annars verið nýttar til grundvallar nýlegri skýrslu stjórnvalda um mat á áreiðanleika endurvigtunar, umfangi og ástæðum frávika og hugsanlegum úrbótum. Sögðu skýrsluhöfundar frávik í talnagögnum benda til „skipulags ofmats íshlutfalls upp á um 1,7% að meðaltali“.
Byggja á löggildingu
Í ljósi þeirrar bilunar sem varð og þeirra frávika í vigtun sem skapaðist í Vestmannaeyjum var lagt fyrir Fiskistofu hvort það kynni að vera svo að hafnarvogir í öðrum höfnum væru með sambærilega bilun án þess að vitað væri af því. Jafnframt var spurt hvort tilefni væri til þess að gera ítarlega úttekt á ástandi hafnarvoga á landinu öllu. „Þær vogir sem notaðar eru til aflaskráningar á Íslandi hafa fengið löggildingu og á hafnarvogum fer sú skoðun fram árlega. Endrum og eins er Fiskistofu tilkynnt um bilanir sem upp koma í vigtarbúnaði en að öðru leyti fer Neytendastofa með lögbundið eftirlit með mælitækjum,
Sé vog með gilda löggildingu er gengið út frá því hún vigti rétt. Vandséð er hvernig byggja ætti vigtun og aflaskráningu á annarri forsendu en þeirri. Vogir eins og aðrir hlutir geta bilað en þá er það á ábyrgð eiganda þeirra að tryggja að þær séu lagaðar og virki rétt,“ segir í svari Fiskistofu.
Ekki áhyggjuefni
Þá var Fiskistofa einnig spurð hvort almenningur og þeir aðilar sem heyra undir eftirlit Fiskistofu gætu gengið að því vísu að vigtunartölur væru réttar og hvort Fiskistofa teldi tilefni til þess að þeir aðilar sem heyra undir eftirlitið ykju endurvigtun þannig að þær sem sæta eftirliti gætu fullvissað sig um áreiðanleika vigtunar hafnarvoga.
„Fiskistofa byggir ákvarðanir sínar um eftirlit með löndun og vigtun afla sem og um yfirstöðu hjá endurvigtunaraðilum á gagnasöfnun og áhættugreiningu og miðar að því að veita virkt aðhald þar sem líkur eru mestar á að þörf sé fyrir eftirlit og að það skili árangri. Sem betur fer eru bilanir í löggiltum vogum fátíðar og uppgötvast fljótt. Það er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að bilun í hafnarvoginni í Vestmannaeyjum í nokkra daga hafi valdið marktækum breytingum í starfi Fiskistofu og dregið úr árangri við eftirlit,“ svarar Fiskistofa.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst