Stormur hefur geysað á landinu sunnan- og vestanverðu síðan í gærkvöldi. Enn er í gildi appelsínugul viðvörun á Suðurlandi og gildir hún til miðnættis.
Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að veðrið haldi áfram að gera okkur skráveifu þessi jólin og nú undir hádegið var Björgunarfélag Akraness kallað út vegna báts í Akraneshöfn sem var við það að slitna frá bryggju vegna hvassviðris. Björgunarbáturinn Jón Gunnlaugsson og lóðsbáturinn Þjótur voru mannaðir og náðu að koma bátnum aftur að bryggju þar sem landfestar voru tryggðar.
Í Vestmannaeyjum var Björgunarfélag Vestmannaeyja kallað út vegna flutningabíls sem stóð skammt frá Eldfelli en vindurinn var við það að rjúfa þekju tengivagnsins sem þá hefði getað splundrast vegna vinds, en komið var í veg fyrir það, segir í tilkynningunni.
Eftirfarandi kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands í morgun: Suðvestanátt í dag, víða hvassviðri eða stormur með dimmum éljum, einkum um landið sunnan- og vestanvert. Frost 0 til 5 stig.
Á morgun, annan dag jóla er útlit fyrir stífa suðvestanátt, en hvassviðri með suðurströndinni. Það hlýnar heldur og úrkoman fer yfir í slyddu og jafnvel rigningu sunnanlands. Snjókoma eða él í öðrum landshlutum en að mestu þurrt á Austurlandi.
Á föstudag er síðan spáð minnkandi suðvestanátt með éljum, en þurru veðri norðaustan til.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst